144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

703. mál
[13:13]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti okkar í allsherjar- og menntamálanefnd þar sem við fjölluðum um þetta mál um þjóðlendur. Hér er verið að leggja til breytingar á lögunum sem fela í sér að leyfi ráðherra þurfi til nýtingar náttúrumyndana og vindorku. Lagt er til að sveitarfélögin hafi meira svigrúm til að ákveða hvernig tekjum af þjóðlendum er varið.

Lagt er til að starfstími óbyggðanefndar verði framlengdur til loka þessa árs og að valdheimildir til að þinglýsa eignarheimildum varðandi þjóðlendur verði færðar á hendur ráðherra, enda þykir það eðlilegra fyrirkomulag en það sem er nú við lýði.

Við fjölluðum aðeins í nefndinni um ákvæði frumvarpsins sem skilyrða nýtingu náttúrumyndana innan þjóðlendu við leyfi ráðherra. Það kom í ljós að vegna fjölgunar ferðamanna er, eins og við þekkjum, mikil ásókn í náttúruperlur hér á landi og það eru miklir verndarhagsmunir fólgnir í nýtingu þeirra. Það var talsvert fjallað um það í nefndinni að hugtakið „náttúrumyndun“ væri ekki nægjanlega skýrt og þess vegna telur nefndin rétt að þetta atriði bíði fyrirhugaðrar heildarendurskoðunar á lögunum. Þess vegna leggjum við til þá breytingu sem birtist í nefndarálitinu, að það orð falli brott úr frumvarpinu.

Jafnframt er önnur breytingartillaga frá nefndinni þar sem við leggjum til að það bætist við nýr málsliður sem er svohljóðandi: Heimilt er þó að víkja frá 70 ára aldurshámarki.

Eftir að hafa fjallað um málið telur nefndin að þetta sé atriði sem mikilvægt er að koma til móts við vegna þess að sá málaflokkur sem óbyggðanefnd fjallar um er mjög sérhæfður og mikilvægt að reynsla og þekking þeirra nefndarmanna sem hafa starfað við þetta nýtist sem lengst. Því leggjum við fram þessa breytingartillögu.

Það kom skýrt fram í nefndinni, bæði frá umsagnaraðilum og eins þegar umræður áttu sér stað í nefndinni, að nauðsynlegt sé að það ríki gagnsæi þegar kemur að endurgjaldi fyrir nýtingu á auðlindum innan þjóðlendna og hvernig fjármunum er varið. Við teljum rétt að við fyrirhugaða heildarendurskoðun á lögunum verði framangreind sjónarmið höfð að leiðarljósi og að það nái jafnframt til nýtingar innan þjóðlendna sem sveitarfélög veita leyfi til.

Undir þetta skrifa ásamt þeirri sem hér stendur hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Valgerður Gunnarsdóttir.