144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:45]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Ég vil kalla eftir því að hingað komi framsögumaður framhaldsnefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar og mæli fyrir því og gefi okkur tækifæri til að spyrja út í ákveðin atriði sem okkur finnst vera óljós. Það er afar mikilvægt því að við erum ekki að tala um neitt smámál, frú forseti, við erum að tala um ríkisfjármálaáætlun sem á að liggja undir fjárlagagerð fyrir árin 2016–2019. Það skiptir mjög miklu máli að hingað komi framsögumaður fyrir framhaldsnefndarálitinu og svari þeim spurningum sem við höfum fram að færa. Ég bið, frú forseti, um það að ef ekki næst í framsögumann eða formann fjárlaganefndar eða annan nefndarmann úr meiri hluta fjárlaganefndar verði þessu máli frestað þar til búið er að finna nefndarmann úr meiri hluta fjárlaganefndar sem getur farið yfir (Forseti hringir.) framhaldsnefndarálitið og svarað spurningum okkar varðandi það.