144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Fjárlaganefnd verður auðvitað að vera vandanum vaxin. Hv. þingmaður nýtur þeirra forréttinda umfram mig að hún fær að starfa með hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og undir hennar forustu í fjárlaganefndinni og þekkir þessi mál miklu betur. Það er vel hugsanlegt að málin hafi þróast þannig hjá meiri hluta fjárlaganefndar að þetta sé orðið, eins og hv. þingmaður orðaði það, plagg sem enginn gerir neitt sérstaklega mikið úr. Ég vil nú ekki leyfa mér að líta þannig á málin. Ég tel að það sé ekki leyfilegt að líta þannig á málin. Við sem tókum til máls í þeirri löngu umræðu sem stóð um þetta vorum öll sammála því að ríkisfjármálaáætlun væri mikilvægt tæki sem hjálpaði framkvæmdarvaldinu hverju sinni til þess að gera áætlanir og okkur á Alþingi til þess að veita framkvæmdarvaldinu aðhald. Vegna einhverra lausataka í forustu fjárlaganefndar eða hugsanlega vegna þess að framkvæmdarvaldið tekur ekki mark á plagginu þá held ég að við sem sitjum hér í þingsal og eigum að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og meiri hlutanum eigum ekkert að láta það á okkur fá.

Það liggur ljóst fyrir að lykilstærðir voru óvissar. Nú er hins vegar komin fram meiri vissa, t.d. varðandi lyktir kjarasamninga og sömuleiðis varðandi það með hvaða hætti stöðugleikaskatturinn hefur áhrif á vaxtagjöld ríkisins. Það liggur fyrir núna að slitabúin ætla ekki að fara stöðugleikaskattsleiðina. Þau munu aldrei borga neinn stöðugleikaskatt. Þau munu reiða af höndum stöðugleikaframlög. Þau fá afslátt upp á 400 milljarða frá stöðugleikaskattinum. Hæstv. fjármálaráðherra segir að þannig komi 400 milljarðar inn. Við vitum að það gerist á næsta ári. Í bili er einungis búið að finna leiðir til þess að nýta 160 milljarða til að greiða af (Forseti hringir.) skuldum ríkisins. Það skapar að minnsta kosti ákveðið svigrúm fyrir vaxtagjöld, (Forseti hringir.) sem skiptir máli og vantar inn í þessa áætlun.