144. löggjafarþing — 140. fundur,  30. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Maður veit eiginlega ekki hvað maður á að gera við þetta plagg. Maður getur eiginlega ekki tekið það alvarlega.

Hins vegar kem ég hérna upp til þess að lýsa því yfir að mér fannst umræðan um það í þingsal, t.d. við 2. umr., vera góð og það lögðu allir sitt af mörkum til að reyna að tala um breiðu línurnar. Eitt af því sem mér var hugleikið er: Á maður virkilega að trúa því að ekki sé stefnt í neinar, svo hægt sé að tala um, opinberar fjárfestingar á næstu árum? Það er ekki að sjá að ráðast eigi til dæmis í uppbyggingu Landspítalans ef maður les þetta plagg, því að það stendur beinlínis í áætluninni að opinberar fjárfestingar muni ekki halda í við afskriftir og það eftir gríðarlegt niðurskurðartímabil þar sem við höfum verið að halda aftur af fjárfestingum í innviðum. Getur maður tekið þetta alvarlega sem áætlun í ríkisfjármálum? Ég held ekki. (Forseti hringir.) Það er allt á sömu bókina lært þegar kemur að þessari áætlun, því miður.