144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:17]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eins og fram kemur hjá forseta mæli ég fyrir nefndaráliti minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en hann skipa auk mín, Birgitta Jónsdóttir, Valgerður Bjarnadóttir og Helgi Hjörvar.

Eftir 2. umr. þessa þingmáls var ákveðið að taka það aftur inn til nefndar á tvennum forsendum, að fram hefðu komið óskir þess efnis og að breytingartillaga væri fyrirsjáanleg. Minni hlutinn telur þá breytingu sem meiri hlutinn, og með varaformann nefndarinnar hv. þm. Brynjar Níelsson í broddi fylkingar, vera til bóta en sú breyting gerir ráð fyrir að ráðherra geti ekki flutt stofnun að eigin geðþótta því áður verði hann að hafa lagt fyrir þingið skýrslu þar sem færð eru rök fyrir áformum um flutning. Enn mætti herða á þessu ákvæði að okkar mati með því að gera samþykkt Alþingis að skilyrði fyrir flutningi stofnunar. Slíkt væri eðlilegt og til bóta. En meginmáli skiptir þó að tryggja að fyrir liggi efnisleg úttekt og að fram fari málefnaleg umræða um hugsanlegan flutning áður en til framkvæmdar kæmi. Ég legg áherslu á að hér er á ferðinni breytingartillaga sem að okkar dómi er mjög til góðs þótt hún hefði mátt ganga lengra. Ég mæli með samþykkt breytingartillögunnar.

Engu að síður vill minni hlutinn ítreka andstöðu við frumvarpið og vísar í nefndaráliti sínu til 3. gr. frumvarpsins um lögfestingu tiltekinna ráðherranefnda og telur ámælisvert að slík breyting sé gerð án þess að fram hafi farið úttekt og rækileg umræða um stjórnskipulega þýðingu slíkrar breytingar. Talsmenn minni hlutans hafa fært ítarleg rök fyrir nauðsyn þessa í umfjöllun um málið, bæði á vettvangi nefndarinnar og einnig í umræðu um þingmálið hér í þingsal.

Í 6. gr. frumvarpsins er lagt til að ráðherra verði heimilt að setja á fót „sérstakar starfseiningar og ráðuneytisstofnanir“, eins og það heitir í frumvarpinu, starfræktar sem hluti af ráðuneyti, að eigin vilja og án samþykktar Alþingis. Minni hlutinn telur að þetta ákvæði sé óljóst og orki mjög tvímælis. Heppilegra væri að þessi tillaga um breytingu á lögum fengi nánari skoðun og nánari umræðu.

Þá vísar minni hlutinn í umsagnir stéttarfélaga og framkomnar röksemdir í umræðu í þingsal gegn samþykkt heimilda frumvarpsins til að flytja starfsmenn á milli ráðuneyta og stofnana.

Minni hlutinn leggst eindregið gegn samþykkt 8. gr. frumvarpsins sem felur í sér að samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna sé lögð niður og að forsætisráðuneytinu verði þess í stað fært vald varðandi „túlkun siðareglna þegar eftir því er leitað…“ svo vitnað sé í frumvarpið. Minni hlutinn telur að ásetningur um að miðstýra þessari vinnu í forsætisráðuneytinu sé varasamur og mjög ámælisverður.

Ég las upp þá þingmenn sem eru með nöfn sín undir þessu nefndaráliti, en vil geta þess sérstaklega að Brynhildur Pétursdóttir, sem er áheyrnarfulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, er samþykk áliti þessu.

Í stuttu máli er breytingartillagan sem fram kemur frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mjög til bóta og fyrir mitt leyti mun ég samþykkja hana. En ég mun greiða atkvæði gegn frumvarpinu þegar það er afgreitt í heild sinni vegna þess að það hefur að geyma mjög vanhugsaða þætti sem varhugavert er að lögfesta.