144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[12:47]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni munum styðja þessa tillögu. Við höfum fallist á þau rök sem færð hafa verið fram um flutning Hvammsvirkjunar í nýtingarflokk. Það er mikill sigur fyrir þá umgjörð sem við höfum byggt með lögum hér í landinu um vernd og nýtingu náttúruverðmæta sem felst í því að stjórnarmeirihlutinn skuli hafa dregið til baka breytingartillögur sem hann reyndi að hnoða í gegn þvert á lögbundna ferla, trekk í trekk síðastliðinn vetur.

Það skiptir miklu máli að halda í þá góðu lagaumgjörð og tryggja áfram samstöðu meðal þjóðarinnar um nýtingu og vernd náttúruauðæfa okkar. Við skulum vona að á næsta vetri og vetrinum þar á eftir takist okkur að halda í heiðri þær meginreglur okkur öllum til ávinnings.