144. löggjafarþing — 141. fundur,  1. júlí 2015.

veiðigjöld.

692. mál
[13:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það liggur við að ég segi: Heyr á endemi. Fyrir tveimur mínútum komu fulltrúar tveggja stjórnarandstöðuflokka hérna upp og kröfðust þess að veiðigjöld yrðu hærri. Síðan kemur fulltrúi annars flokksins upp og fer fram á að veiðigjöldin séu lækkuð meira, það sé yfirboð á stjórnarmeirihlutann, og tillagan felst í því að ganga lengra í að lækka veiðigjöld á svokallaðar minni og meðalstórar útgerðir.

Hvernig er svo útfærslan? Hún endar á því að ákveðinn hópur, ekki minnstu aðilarnir, ekki strandveiðarnar, heldur ákveðinn hópur fær umtalsvert meiri afslátt en næsti hópur sem er rétt fyrir ofan. Ég á satt best að segja ekki til orð, en þetta er í líkingu við þá „málefnalegu“ umræðu sem hefur verið hér um veiðigjöld. Það liðu ekki tvær mínútur frá því að menn fóru fram á hærri veiðigjöld þangað til þeir lögðu til meiri lækkanir, yfirboð. Og útfærslan er með þeim hætti að hún tryggir ekki betur hag þeirra smæstu heldur ákveðinna aðila. (Forseti hringir.) Og hér hefur verið talað um sérhagsmuni og vildarvini og ég veit ekki hvað og hvað. Hversu langt (Forseti hringir.) á að ganga? Ég legg til að stjórnarmeirihlutinn felli þessa tillögu, sem hann hefur og gert.