144. löggjafarþing — 144. fundur,  2. júlí 2015.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

800. mál
[15:33]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég styð alla uppbyggingu hvar sem er á landinu en mér er skylt að benda á það í þessu máli að þegar verkefninu var hleypt af stað árið 2012 var áætlað að jarðgöng á Bakka mundu kosta 1.800 millj. kr. Nú er komið í ljós að nú þegar er búið að ráðstafa 3.100 millj. kr. í þetta verkefni og er það ekki lokatala. Nú þegar hefur verkefnið hækkað um 70% og þetta fé er sótt í vasa skattgreiðenda.

Það er að mínu mati óásættanlegt að fara af stað með verkefni með svo slaka áætlunargerð og þegar hækkunin er með þessum hætti. Ég hef farið yfir það í ræðum mínum hvernig verkefninu var lýst á sínum tíma, en það var merkilegt að heyra orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar þar sem hann staðfesti það raunverulega að hann er umhverfisverndarsinni eins og flokkur hans vill vera. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)