144. löggjafarþing — 145. fundur,  2. júlí 2015.

stöðugleikaskattur.

786. mál
[18:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með þá vinnu sem fram hefur farið við þessi mál í efnahags- og viðskiptanefnd. Það er hins vegar mikil synd að stjórnarflokkarnir skyldu ekki taka í útrétta sáttarhönd okkar í byrjun júnímánaðar og ljúka þingstörfum þá, eins og hefði svo auðveldlega verið hægt að gera í staðinn fyrir að setja okkur í þá stöðu að þurfa að vera að vinna þetta á hlaupum með lítinn tíma fyrir nefndarfundi á sama tíma og hér voru þingfundir um ekki nokkurn skapaðan hlut. Það hefði verið betra og betri bragur á því ef nefndin hefði alfarið getað einbeitt sér að þessu máli.

Ég vil fara nokkrum orðum um þessi mál og hyggst ræða þau sameiginlega þó að auðvitað sé hægt að gera það í tvennu lagi. Mig langar að byrja á forsögu málsins. Við rekjum í sameiginlegu minnihlutaáliti okkar um nauðasamningsmálið, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og ég, aðdraganda málsins. Mér þykir mjög mikilvægt að halda því til haga, vegna þess að það verður að segjast alveg eins og er að yfirlýsingar forustumanna ríkisstjórnarinnar og fulltrúa hennar í þessu máli hafa ekki borið með sér mikið örlæti í garð þeirra sem á undan fóru í glímu við þetta flókna viðfangsefni og jafnvel gert óeðlilega lítið úr þeirri vinnu sem áður hafði verið unnin á því sviði. Þannig hefur hæstv. forsætisráðherra sagt og vitnað í ráðgjafa stjórnvalda, Sigurð Hannesson, þess efnis að ekkert hafi verið að finna í haftaáætluninni frá 2011 um slitabúin. Það er alveg hárrétt, enda var þá ekki búið að fella slitabúin undir gjaldeyrishöft og það hefði þar af leiðandi verið ámóta gáfulegt að fjalla um þau í þeirri áætlun eins og einhver önnur viðfangsefni sem ekki heyrðu undir gjaldeyrishöftin.

Það er líka rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti áðan að svo seint sem á árinu 2010 var veruleg óvissa um gjaldeyrisjöfnuð þessara slitabúa og áhrif uppgjöra þeirra á afnám hafta. Það er síðan á seinni hluta árs 2011 og í upphafi árs 2012 sem sjónir manna fara að beinast meira að þeim þætti og í kjölfarið kemur lagabreytingin í marsmánuði 2012 þegar erlendar eignir þrotabúanna eru felldar undir gjaldeyrishöft og sú aðstaða sköpuð sem við búum nú við til að glíma við þetta, og auðvitað að setja kröfuhöfum í búin tiltekna afarkosti til þess að forða því að útgreiðslur úr búunum valdi íslenskum almenningi og íslensku efnahagslífi alvarlegum búsifjum.

Þá hófst í kjölfarið vinna í fjármála- og efnahagsráðuneytinu að undirbúningi aðgerða til þess að glíma við þrotabúin. Eitt af því fyrsta sem menn horfðu þar til, og við rekjum þetta ágætlega í sameiginlegu nefndaráliti okkar, það voru unnar ítarlegrar greiningar á þeim þrýstingi sem innlendar eignir búanna mundu valda á greiðslujöfnuð og gerðar tillögur um mögulegar lausnir þar að lútandi, nokkrar sviðsmyndir sem bæði þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Katrín Júlíusdóttir, gerði grein fyrir í viðtölum og nefndi útlínur að í ræðu á ársfundi Seðlabankans á útmánuðum 2013 sem og seðlabankastjóri gerði í viðtölum í upphafi árs 2013, þannig að þetta kom allt fram opinberlega. Í þeim sviðsmyndum var gert ráð fyrir að ríkinu yrði tryggð hlutdeild í hagnaði af sölu bankanna og að Seðlabankinn eða eignasafn Seðlabankans kæmi að yfirtöku innlendra eigna úr þrotabúunum til að greiðslujafnaðarhlutleysa þau, nákvæmlega með sama hætti og gert er nú ráð fyrir í þeirri lausn sem kölluð er lausn nauðasamninga með stöðugleikaframlagi.

Munurinn var sá stærstur að gert var ráð fyrir því þá að kröfuhafar mundu afsala sér eignarhaldi á bönkunum og ríkið fengi því tryggari ávinning af mögulegri verðmætisaukningu þeirra sem og að byggt var á útgönguskatti sem hinni almennu þvingunaraðgerð til þess að þrýsta kröfuhöfunum út, enda það form mun þróaðra og þekktara og öruggara til notkunar en aðrar leiðir. Það er þess vegna mjög sérkennilegt að heyra hæstv. fjármálaráðherra segja að engar áætlanir hafi verið tilbúnar þegar hann tók við í fjármálaráðuneytinu. Þetta er auðvitað ekki satt. Sérfræðingar sem unnu að þessu máli í tíð síðustu ríkisstjórnar funduðu með forustumönnum ríkisstjórnarinnar vorið 2013, upplýstu þá um alla þá vinnu sem unnin hafði verið, kynntu fyrir þeim allar þær greiningar sem höfðu verið gerðar. Það er einfaldlega ekki sanngjarnt að halda málum á lofti með þessum hætti.

Ég nefni þetta hér vegna þess að mér finnst þetta setja óþarfa leiðindablæ á umfjöllun þessa máls. Ég hefði óskað eftir ríkara örlæti af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar á þessum stóra tímapunkti í garð þeirra sem að málinu hafa komið á fyrri tíð í ljósi þess að það er nú ekki þannig að fulltrúar stjórnarflokkanna hafi alltaf haft hina fullkomnu þekkingu eða fullkomnu vissu um það hvernig best væri að haga málum í þessu máli.

Má ég rifja upp glímu okkar hér haustið 2011 þegar þeir kröfðust þess að hafa eins stuttan tímafrest á gjaldeyrishöftunum og mögulegt var og við börðumst við þá vikum og mánuðum saman vegna þess að það var ekki við það komandi að við gætum haft langan tímaramma um gjaldeyrishöftin, sem allir ráðgjafar sögðu hins vegar að væri algjör forsenda þess að hægt væri að semja við kröfuhafana af einhverju viti, að tímalengdin yrði að vera helst ótímabundin en í öllu falli mjög langur gluggi þannig að líkur væru þó frekar til þess að menn færu út með einhverjum afslætti. Því varð ekki við komið og við enduðum á að stytta fyrirhugaðan gildistíma gjaldeyrishaftanna. Ég lagði fram frumvarp sem miðaði að því að gildistími haftanna rynni út í árslok 2015, og það er svolítið skemmtilegt í ljósi þess hvert við erum komin núna, og við samþykktum haustið 2011 að stytta þann tíma til ársloka 2013. Það var síðan hluti af vinnunni sem unnin var í fjármála- og efnahagsráðuneytinu á útmánuðum 2013 að leggja fram frumvarp um að afnema þessi tímamörk alfarið og hafa höftin ótímabundin. Þar var verið að búa í haginn, enn og aftur, fyrir að geta þrýst mönnum út.

Síðan er vert að muna að þeir stjórnarflokkar sem nú sitja studdu ekki lagabreytinguna 2012. Kannski áttuðu þeir sig ekki á eðli málsins, en í öllu falli voru þeir vitlausum megin í þeirri atkvæðagreiðslu. Ég ítreka því það sem ég segi hér, ég hefði þegið örlítið meira örlæti af þeirra hálfu í þessari umræðu.

Að því er varðar stöðugleikaskattinn sjálfan og nauðasamningaleiðina hefur komið fram við meðferð málsins fyrir nefndinni og í opinberri umræðu að auðvitað sé þetta mjög hár skattur, og það er ekki einfalt að rökstyðja 39% eignarskatt. Það stappar nærri eignaupptöku og það þarf rík rök fyrir svo mikilli skattheimtu. Þess vegna skilur maður líka afskaplega vel að stjórnvöld voru allt fram á upphaf þessa árs að vinna með hugmyndina um útgönguskatt, sem er nákvæmlega sú hugmynd sem við höfðum verið að vinna með allt frá árinu 2011 sem úrlausn á þessum vanda, og það er ekki fyrr en á útmánuðum núna, það er ekki fyrr en í febrúar, mars sem ríkisstjórnin ákveður að prófa sig áfram með þennan stöðugleikaskatt.

Það sem er lykilatriðið varðandi hann og forsenda þess að hann haldi er að hægt sé að rökstyðja þessa háu skattprósentu og sérstaklega að hún byggi á einhverjum efnislegum forsendum sem geti staðist og komi þannig í veg fyrir að dómstólar telji hér um að ræða óréttmæta eignaupptöku á eigum kröfuhafa.

Ég tel gild rök hafa verið færð fram í vinnu nefndarinnar fyrir því að þetta geti staðist. Ég stend að nefndaráliti og styð frumvarpið um stöðugleikaskattinn og tel það mjög mikilvægt. Það er þannig að við þessar aðstæður þarf að áætla greiðslujafnaðaráhrifin, og vegna þess að hér spannst umræða áðan um það hvort við stæðum frammi fyrir gerðum hlut og hvort búið væri að binda ríkið með samningum við kröfuhafana þá er þó alla vega eitt algjörlega ljóst, menn eru búnir að binda sig hvað varðar efri mörk skattheimtunnar, hærra en 39% verður ekki farið, það er alla vega grunnurinn sem búið er að setja.

Í kynningunni í Hörpu þótti mér býsna glannalega að farið, sérstaklega í ljósi þeirra upplýsinga sem síðar hafa komið fram, vegna þess að þar voru sýndar með gríðarstóru letri tölur upp á 800 milljarða og 1.200 milljarða. En staðreynd málsins er sú, þegar horft er í tölurnar að baki þessu, að ef skatturinn yrði lagður á alla aðila og frádráttarliðir nýttir mundi hann skila 640 milljörðum. Síðan lá það fyrir þegar málið var kynnt að hugmyndin um nauðasamninga, til að skapa hvata fyrir kröfuhafa til þess að semja sig frá skattinum, að sú leið yrði opnuð og að ef hún yrði nýtt mundi það leiða til lækkunar fyrir alla, en framlög búanna yrðu væntanlega ólík og það færi eftir samsetningu hvers og eins hversu mikið þau þyrftu að leggja af mörkum.

Miðað við það sem við höfum séð er því alveg ljóst að bein fjárframlög búanna til ríkisins í gegnum stöðugleikaframlögin eru mjög áþekk og gert var ráð fyrir í þeim sviðsmyndum sem unnið var að í tíð síðustu ríkisstjórnar á árunum 2012 og 2013. Við erum að tala um í grófum dráttum, eins og hér hefur komið fram í opinberri umræðu, að bein framlög, peningaleg framlög, annaðhvort í formi greiðslu reiðufjár eða skuldabréfa, væru einhvers staðar upp úr 300 milljörðum en ekkert endilega mikið yfir 400 og á bilinu 300–400 væri líklegasta niðurstaðan. Það er það sem felst í stöðugleikaframlagaleiðinni. Það eru minni framlög í ríkissjóð frá búunum en á móti koma síðan ýmiss konar aðrir þættir, sem auðvitað hafa þá efnislegu þýðingu að þeir geta hjálpað til við að greiðslujafnaðarhlutleysa þessi bú en þeir fela ekki í sér nein peningaleg framlög sem geta réttlætt glannalegar yfirlýsingar um 800 milljarða eða 1.200 milljarða, eins og kynnt var í sýningunni miklu í Hörpu.

Þannig má sem dæmi telja að meðal þess sem talið er til peningalegs framlags af hálfu búanna, ef allt gengur eftir í samningum er talið til stöðugleikaframlags af hálfu búanna lenging þeirra, lenging í erlendri lánafyrirgreiðslu við innlenda banka upp á hundruð milljarða. Það eru ekki á nokkurn hátt fjármunir sem fara í ríkissjóð og er ekkert hægt að nota til þess að réttlæta glannalegar yfirlýsingar um 800 eða 1.200 milljarða í sameiginlega sjóði. Það er einfaldlega lenging í lánafyrirgreiðslu sem kröfuhafarnir veita innlendu bönkunum. Með sama hætti er talað um að endurgreiðsla nýju bankanna á víkjandi lánum, sem veitt hafa verið í erlendum gjaldeyri til þess að tryggja gjaldeyrisjöfnun þeirra, feli í sér stöðugleikaframlag. Það er vissulega rétt að þá kæmi gjaldeyrir sem ríkið gæti notað í gjaldeyrisvaraforðann en á móti þeim peningum er nú þegar skuldabréf og ríkið á þá peninga, hefur lánað þá og þar af leiðandi, ef við gefum okkur að frá búunum kæmu 100 milljarðar með þessum hætti inn í gjaldeyrisvaraforðann, er það ekki framlag frá bönkunum inn í gjaldeyrisvaraforðann eða frá kröfuhöfunum inn í gjaldeyrisvaraforðann heldur er einfaldlega verið að greiða upp skuldabréf, það er verið að greiða upp skuld sem nú þegar hefur verið stofnað til.

Mér sýnist þess vegna þegar hæstv. forsætisráðherra kemur hér og talar eins og hann gerði í svari við fyrirspurn frá mér um daginn þegar hann sagði að stöðugleikaframlög gætu unnið með miklu meira en 800 milljörðum — það er með svona bókhaldsbrellum sem hægt er að reikna sig upp í það. Meðal annars hef ég séð einhverja útreikninga þar sem menn telja meira að segja bankaskattinn með þar inni. Ja, þá þurfa menn að gefa sér það að bankaskatturinn verði dæmdur ólögmætur og ríkið þyrfti að endurgreiða hann í krónum og þær krónur mundu síðar leita út. Það er með slíkum brellibrögðum sem verið er að reyna að tala sig upp í einhverja 800 milljarða og það er engum til góðs að búa til svona óra. Það er ósköp einfaldlega þannig efnislega að hér er um miklu, miklu minni framlög, peningaleg framlög kröfuhafanna að ræða til ríkisins ef stöðugleikaframlagsleiðin verður farin. Og stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir er hvort þau séu örugglega nóg. Það er vandasamt þegar við stöndum annars vegar frammi fyrir því að við teljum að við getum rökstutt þörf fyrir að leggja á skatt upp á 39%, sem skili 680 milljörðum, og síðan sjáum við fram á stöðugleikaskilyrði sem eiga að skila sambærilegum árangri en fela í sér fjármunayfirfærslu, beina fjármunayfirfærslu frá búunum upp að á bilinu 300–400 milljarða, ekki meira. Það þarf auðvitað að útskýra þennan mismun og ég er að reyna að gera það úr þessum ræðustól. Hann fæst með því að nota þau tæki sem við sögðum alltaf að ætti að nota 2011, 2012 og 2013, lengja í skuldbindingunum, flytja óvissar eignir yfir til ríkisins o.s.frv. Það er ekki beinlínis þannig að í því felist fjármunalegt framlag og í sumum tilvikum er þar um að ræða, eins og ég nefndi áðan, flýtiendurgreiðslu á skuld sem bankarnir eiga við Seðlabankann.

Virðulegi forseti. Það sem síðan skiptir mestu við þetta mál, að þessu öllu röktu hér, er umbúnaðurinn um þá fjármuni sem þannig renna í ríkissjóð. Gefum okkur að leið stöðugleikaframlaganna verði farin og að við séum þá að tala um fjármunatilfærslu til ríkisins upp á 400 milljarða, það er líklega ekkert mikið meira sem við erum að tala um. Það eru samt gríðarlegir peningar og eins og rakið var ágætlega áðan af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni er það í rauninni fyrst og fremst skuld ríkisins við Seðlabankann sem hægt væri að greiða upp án nokkurra áhrifa á hagkerfið að öðru leyti. Hún mundi hins vegar spara ríkissjóði vaxtagreiðslur upp á 10 milljarða á ári strax. Síðan er hægt að reyna að útfæra ýmsar aðrar leiðir, t.d. ef teknar verða yfir einhverjar kröfur á innlenda aðila, það er hægt að flytja þær yfir í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og með öðrum hætti kannski koma fyrir eignum að einhverju leyti. En eftir munu standa hundruð milljarða sem skiptir miklu máli að fari ekki aftur í umferð hér innan lands með beinum hætti.

Í sameiginlegu nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar um stöðugleikaskattsmálið er þetta rakið, rætt um að við teljum öll að þetta sé lykilforsenda til að markmiðum frumvarpsins verði náð, að þeim fjármunum sem renna í ríkissjóð við skattlagninguna verði ráðstafað í samræmi við markmið um efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika og það á að breyttu breytanda líka við um framlög sem koma inn úr stöðugleikaframlögum. Tilgangurinn er ekki að afla ríkissjóði tekna til að standa undir útgjöldum ríkissjóðs heldur til að skapa forsendur fyrir losun fjármagnshafta.

Við leggjum áherslu á að fjármunum sem renna í ríkissjóð verði ráðstafað þannig að þeir valdi ekki þenslu og hluti þeirra fjármuna sem skattaðilarnir munu nýta til greiðslu skattsins nú eru nú óvirkar innstæður í innlendum fjármálafyrirtækjum og það er mikilvægt að þeim fjármunum sé ekki ráðstafað í aukningu ríkisútgjalda því að slík ráðstöfun mundi stuðla að aukningu á virku peningamagni í umferð og hafa þensluhvetjandi áhrif á hagkerfið.

Við gerum breytingartillögu við 1. gr. frumvarpsins og ég ætla ekkert að fara í launkofa með það að ég hefði viljað gera meiri breytingar. Við gerum ráð fyrir því að í frumvarpi til fjárlaga skuli gerð grein fyrir áætlaðri meðferð og ráðstöfun þessara fjármuna — það segir nú þegar í frumvarpinu — og ráðherra hafi samráð við Seðlabanka um mat á áhrifum þess á efnahagslegan og fjármálalegan stöðugleika. Við teljum þetta samráð við Seðlabankann mikilvægt, leggjum áherslu á að leiðsögn hans verði fylgt, en bætum því við að á undirbúningsstigi fjárlagafrumvarps verði nefndinni kynnt áform ráðherra um meðferð og ráðstöfun fjármunanna og það fer þá inn í lögin. Með því móti erum við að girða fyrir það að hér verði við einfalda fjárlagaafgreiðslu hægt að seilast í þessa fjármuni. Fjárlaganefnd getur ekki, til þess að loka einhverju bili milli 2. og 3. umr. fjárlaga, svo dæmi sé tekið, seilst í fjármunina án aðkomu með þessum hætti. Við erum að reyna á þann hátt að girða fjármunina frekar af, þannig að fjárveitingavaldið hafi ekki beinan aðgang að því og þar með að draga úr freistnivanda.

Ég tek undir það sem segir í nefndarálitinu að um þetta ríkti einhugur og þverpólitísk samstaða í nefndinni en ég hefði viljað ganga lengra. Ég hefði viljað setja í lög einhvers konar frekari form, enn frekari formreglur til að torvelda aðgang að þessu og ég hefði viljað, eins og ég hef óskað eftir við formenn stjórnarflokkanna, að það yrði formlegt samkomulag allra flokka á Alþingi um meðferð þessa fjár. Mér finnst það ekki sérlega uppörvandi að forustumenn stjórnarflokkanna, sem hvorugur heiðrar okkur með nærveru sinni hér við meðferð þessa máls, skuli ekki hafa samþykkt þá hugmynd. Mér fyndist eðlilegast að við sameinuðumst um það að binda stjórnmálaflokka okkar á sama hátt og fordæmi eru fyrir úr nágrannalöndunum um það að við mundum ekki nálgast þessa peninga og skuldbindum okkur til að halda þeim utan almenns rekstrar ríkisins, nema þá að gripið verði til sérstakra aðgerða meðfram.

Sporin hræða nefnilega, virðulegi forseti, og það kom fram frá öllum umsagnaraðilum, greiningaraðilum, hagsmunasamtökum í atvinnulífinu að stóra hættan í málinu sé að menn seilist í þessa peninga. Árangurinn af aðgerðinni verður enginn ef það gerist. Það getur orðið gríðarlegt tjón fyrir samfélagið ef menn freistast til þess. Ég ítreka að sporin hræða vegna þess, eins og sumir greiningaraðilar minntu á, að þetta er þjóð sem alltaf hefur látið freistast. Við erum að tala um þjóð sem alltaf hefur látið freistast. Þegar eitthvað í líkingu við þetta hefur skapast hafa íslensk stjórnmálaöfl alltaf freistast til þess að taka skammsýnar ákvarðanir. Það hefði þess vegna þurft að reyna að binda þetta inn frekar og ég er mjög áhyggjufullur yfir að það hafi ekki tekist.

Fyrir nefndinni voru færð fram þau rök að mikilvægt væri að Seðlabankinn kæmi að þessu, hann mundi veita álit. Ja, það er nú hægt að patta hann. Ég minni bara á það að í sumar var auglýst staðan undan seðlabankastjóranum og hann fékk hana ekki endurveitta nema með því að skrifa upp á að hann mundi fara ef ríkisstjórnin mundi breyta lögum um fyrirkomulag Seðlabankans. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur gert sérstaka athugasemd við þær fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar, ítrekað í úttektum sínum hér síðasta vetur áhyggjur af endurskoðun laga um yfirstjórn Seðlabankans og undirstrikað mikilvægi faglegrar yfirstjórnar Seðlabankans. Og í hvaða stöðu er seðlabankastjóri, sem hefur þurft að skrifa upp á það til þess að fá starfið að hann muni fara um leið og ríkisstjórnin breytir um yfirstjórn Seðlabankans, til að standast þrýsting? Hvað þá ef búið væri að breyta yfirstjórninni, eins og ríkisstjórnin hefur ítrekað lýst vilja til að gera og koma hér inn þremur pótintátum sínum? Hvaða ráð koma þá frá Seðlabankanum? Ég vil segja þetta hér því að sporin hræða og það er svo auðvelt að breyta yfirstjórn Seðlabankans, eins og berlega er orðið ljóst og einlægur vilji þessara ríkisstjórnarflokka stendur til að draga úr sjálfstæði hans og auka pólitísk ítök við yfirstjórn hans. Það er þar af leiðandi sérstakt áhyggjuefni.

Það sem við náum þó með þeirri breytingartillögu sem hér hefur verið útbúin er að við tryggjum ákveðna töf. Það er sem sagt, eins og ég rakti áðan, ekki hægt við einfalda afgreiðslu fjárlaga inni í þinginu að seilast í þessa peninga. Það verður að gera grein fyrir ráðstöfun þeirra í fjárlagafrumvarpinu sjálfu, það stendur í lögum, og áður en það gerist verður ráðherrann að taka efnislega afstöðu til þess hvort og hvernig hann ætlar að ráðstafa fjármunum. Hann verður að fá álit Seðlabankans og hann þarf að kynna það álit efnahags- og viðskiptanefnd.

Ég sé þetta þess vegna fyrir mér sem að minnsta kosti fimm mánaða ferli áður en fjárlagafrumvarp er lagt fram. Þannig mundi ég segja til dæmis að ég teldi að ef fjármálaráðherra ætlaði sér að nýta þetta fyrir fjárlög ársins 2016 væri hann fallinn á tíma núna að gera það, í grófum dráttum, þar sem fjárlagafrumvarp verður lagt fram 10. september. Hann hefur auðvitað enn þá tækifæri á að gera það fyrir fjárlög 2017 en þá, eins og ég segi, er þetta nokkurra mánaða ferli sem þarf að fara í gegnum og við höfum alla vega tækifæri til að tefja það ferli.

Ég hefði kosið formlegra samkomulag og ég er sannfærður um að það hefði verið betra fyrir lánshæfismat Íslands, fyrir tiltrú á íslenskt efnahagslíf, vegna þess að t.d. rótið í kringum Seðlabankann á síðasta ári og þetta krukk stjórnvalda í faglega yfirstjórn hans hefur ekki orðið til þess að auka á traust á hagstjórninni. Það er auðvitað ekkert gamanmál og hefur farið alveg óþægilega lágt í almennri umræðu að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skuli ítrekað á síðasta vetri hafa áminnt ríkisstjórn Íslands um að gæta að faglegum vinnubrögðum við endurskoðun á lagaákvæði um yfirstjórn Seðlabankans. Ísland á ekki að vera í þeirri stöðu að vera að sæta reglulega aðfinnslum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í því efni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég ítreka eindreginn vilja okkar til að styðja það sem gott er í þessu máli. Útbúnaðurinn hins vegar er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og við höfum haft mjög lítinn tíma til að kynna okkur málið. Það er mjög aðfinnsluvert að menn hafi ekki nýtt samráðsnefnd um afnám gjaldeyrishafta til þess að upplýsa okkur um ítarlegri hluta þessara mála og sérstaklega að halda vísvitandi leyndum ýmsum þáttum, eins og samráði við kröfuhafa og öðru slíku. Það liggur auðvitað fyrir að með svona „proximity talk“, svo ég sletti í ensku, með leyfi hæstv. forseta, nándarsamningaviðræðum, hefur verið talað við kröfuhafa, það hefur ekki verið talað beint við þá en fulltrúar ríkisins hafa talað við þá og sagt þeim út á hvað ríkið væri tilbúið að loka málinu. Það er ákveðinn samningsgrunnur. Við skulum vona að vel hafi verið að þessu staðið að öllu leyti. Við viljum treysta ríkisstjórninni á þeim grunni, en ég ítreka að ég hef stórar áhyggjur af því að umbúnaðurinn um það hvað verði um þetta fé sé ekki nægur og að við séum ekki að tryggja nægjanlega fjármálalegan og efnahagslegan stöðugleika í framhaldinu eins og við gætum verið að gera.