145. löggjafarþing — 3. fundur,  10. sept. 2015.

fjárlög 2016.

1. mál
[16:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fjármálaráðherra fyrir þetta svar og hugleiðingarnar. Fyrir það fyrsta vil ég segja að ég fagna því að innanríkisráðherra hafi rætt við fjármálaráðherra út af flýtingu framkvæmda við Norðfjarðargöng og ég heiti bæði stuðningi og aðstoð við að finna leið til að það geti orðið. Ég þekki það frá gamalli tíð, þegar ég var í samgönguráðuneytinu, að það er stundum list hins ómögulega að semja sig að hlutum og koma þeim heim og saman til að flýta framkvæmdum.

Ég get líka alveg tekið undir hitt sem hæstv. fjármálaráðherra ræðir um, að koma okkur saman um útgjaldastigið o.s.frv., grunnforsendur fjárlaga. Ég deili þeim skoðunum alveg með honum.

Síðan er það forgangsröðunin. Ég segi fyrir mitt leyti, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að ég tók þátt í því sem stuðningsmaður síðustu ríkisstjórnar að skera mjög mikið niður í velferðarmálum, til aldraðra, öryrkja og heilbrigðismála. Það gerði ég ekki með glöðu geði, ég var stundum með óbragð í munni. En þrátt fyrir áhuga á vegabótum og opinberum framkvæmdum vil ég standa við það sem ég sagði þá, og því var lofað, að auka fjárveitingar til aldraðra og öryrkja og í heilbrigðiskerfið. Það átti að bæta ýmislegt í heilbrigðiskerfinu þegar betur færi að ára og sá tími er nú kominn. Þess vegna skil ég ekki af hverju aldraðir og öryrkjar fá ekki sínar bætur hækkaðar strax eins og aðilar á vinnumarkaði frá 1. maí sl. í stað 1. janúar nk. Þess vegna skil ég heldur ekki af hverju ýmislegt er ekki farið inn í heilbrigðiskerfið eins og stuðningur við kaup á gleraugum og heyrnartækjum fyrir aldraða. Af hverju er það ekki gert? Þetta er mín sýn, virðulegi forseti, þegar við erum búin að ramma inn útgjaldastigið og höfum forgangsraðað þó að ég ítreki að ég tala áfram fyrir því, eins og ég gerði í lokin, að á mörgum (Forseti hringir.) stöðum á landsbyggðinni vantar nútímalegar samgöngur. Við skuldum því fólki það sem aðrir fengu 1970–1975.