145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

virðisaukaskattur.

8. mál
[19:35]
Horfa

Flm. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir innlegg hennar í málið. Hv. þingmaður nefndi stækkandi hóp eldri borgara og lýðheilsu, það er auðvitað eitt af markmiðum frumvarpsins að byggja upp mannvirki sem hægt er að nota á fjölbreyttan hátt. Það skiptir gríðarlegu máli.

Auðvitað erum við með barna- og unglingastarfið að meginmarkmiði og mikil áhersla lögð á það en með tilkomu knattspyrnuhalla — ég gæti örugglega haldið langa tölu um þátt þeirra í því sem snýr að afreksfótbolta — hafa orðið til gönguhópar eldri borgara sem nýta þær hallir snemma á morgnana og það er vel.

Þegar við erum að byggja upp þessi mannvirki, svona til lengri tíma litið, þá er það allt félagsstarf. Eins og ég kom inn á í ræðu minni hefur þetta umhverfi gjörbreyst, íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsstarf sem snýr að tengdu félagsstarfi. Þátttaka foreldra í slíku skipulögðu starfi er mun meiri en áður var og við þurfum að taka tillit til þess þegar við erum að byggja upp þessi mannvirki. Þetta er í raun og veru samkomustaður fjölskyldunnar, að stórum hluta til, í dag.