145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:34]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér er sannast að segja orða vant eftir þau orðaskipti sem urðu á milli hæstv. ráðherra og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar. Er það svo að ráðherra hefur sett af stað, eins og sagt er, fulla vinnu sem miðar að því að þetta frumvarp hérna sé samþykkt? Er unnið samkvæmt því í utanríkisráðuneytinu? Það er alveg ljóst í Evrópumálum að ráðherrann áttar sig ekkert á því hvað þingið, þjóðin eða nokkur vill en núna kemur það líka fram í þessu mikilsverða máli. Ég ætlaði reyndar að spyrja hver væri ástæðan fyrir því að þingmenn ættu allt í einu að sitja í stjórn eða ráði um Þróunarsamvinnustofnun. Ég sé ekki betur en það sé betra að við sitjum á skrifstofu ráðherrans alla daga til að sjá hvað hann er að bardúsa, en hann getur kannski svarað mér þessu samt.