145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil líkt og þingmenn hér nokkrir á undan mér og fólkið sem kostar nú auglýsingar í Ríkisútvarpinu kalla eftir því að ríkisstjórnin segi okkur hvað hún hyggst gera til þess að við leggjum okkar skerf af mörkum til að koma til móts við það fólk sem nú flýr hörmungar í löndum sínum. Þetta er stríðshrjáð fólk. Við, íslensk þjóð, berum kannski í raun ábyrgð á sumu af þessu fólki; ástandið í Sýrlandi er afleiðing af innrásinni í Írak á sínum tíma og okkur ber skylda til þess, virðulegi forseti, að leggja okkar af mörkum í þessu efni.

Það er ekki bara á Íslandi þar sem fólk er óþreyjufullt eftir því að þeir sem fara með völdin grípi til sinna ráða eða einfaldlega segi okkur hinum hvað við eigum að gera. Við sjáum það í fréttum að fólk kemur akandi til Danmerkur og flytur flóttafólk yfir til Svíþjóðar og hvaðeina. Nú held ég að það sé meira en hálfur mánuður síðan hæstv. ríkisstjórn skipaði fimm manna nefnd til að hugsa um þessi mál og ég ætla að hvetja þá fimmmenninga til að hugsa aðeins hraðar. Ekkert okkar vill gera þetta að pólitísku bitbeini, síður en svo, en hálfur mánuður er langur tími fyrir þetta fólk.


Efnisorð er vísa í ræðuna