145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:20]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni hans innlegg í þessa umræðu. Ég fylgdist aðeins með henni í gærkvöldi en átti ekki tækifæri á því að taka þátt í henni en ætla að blanda mér í hana hér í dag vegna þess að ég er á sömu skoðun og hv. þm. Ögmundur Jónasson. Mér finnst þetta mál versna eftir því sem maður skoðar það meir.

Fram að þeim tíma að frumvarpið var lagt fram hafði ég haft það á tilfinningunni og haft þá skoðun að Þróunarsamvinnustofnun og sú starfsemi sem þar væri unnin væri til mikillar fyrirmyndar og almennt mjög mikil ánægja með fyrirkomulag vinnunnar. Ég velti fyrir mér hvaða haldbæru rök það eru sem geta legið að baki því að menn fara í svona framkvæmd.

Ég þekki annað sambærilegt dæmi sem þetta mál minnir mig á. Það gerðist hér í upphafi þessa kjörtímabils að starfshópur sem leiddur hafði verið af hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni um notendastýrða persónulega aðstoð var tekinn af hæstv. félagsmálaráðherra, Eygló Harðardóttur, og leystur upp, skipt um forustu í starfshópnum með þeim rökum að hæstv. ráðherra vildi hafa starfsemina nær sér eins og það var orðað á þeim tíma. Ef menn skoða niðurstöðuna af þeirri ákvörðun hefur ekkert jákvætt gerst í þeim málaflokki. Það er upplausn, óöryggi og kvíði hjá því fólki sem hefur nýtt sér þessa þjónustu og var mjög ánægt með þá þróun sem þarna átti sér stað.

Hér virðist hæstv. utanríkisráðherra ætla að fara sömu slóð, taka þennan málaflokk nær sér inn í ráðuneytið, algerlega án rökstuðnings. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða (Forseti hringir.) afleiðingar hann telji að þetta muni hafa.