145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:13]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við ræddum þetta mál hér í gær athugasemdalaust á kvöldfundi frá kl. 8, málið var tekið á dagskrá kl. 8 í gærkvöldi eins og hér lægi lífið á með þetta mál. Við gerðum enga athugasemd við það heldur vorum hér til miðnættis í gær þó að það sé átta og hálfur mánuður til þingloka. Við hljótum því að gera athugasemd við það að nú þegar við erum að byrja að ræða málið aftur og þetta sinn í dagsbirtu að ráðherrann fari. Við erum öll með spurningar til hans, geri ég ráð fyrir. Ég er að minnsta kosti númer þrjú á mælendaskrá og ég er með nokkrar spurningar til ráðherra sem ég tel skipta máli að hann svari áður en málið fer til nefndar. Og ég nenni ekki að byrja enn einn veturinn þar sem maður stendur hér og talar út í tómið. Það er 16. september og ráðherrarnir eru strax byrjaðir að hlaupa á dyr í sínum eigin málum.

Þegar verið er að tala um ásýnd þingsins þá þurfa allir að líta í eigin barm. (Forseti hringir.) Ráðherrarnir eiga að vera hér og fylgja sínum málum til nefnda.