145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

forritunarkennsla í grunnskólum.

[10:47]
Horfa

Brynhildur S. Björnsdóttir (Bf):

Herra forseti. Borgarstjórinn í New York greindi frá því í fyrradag að allir opinberir skólar í ríkinu þyrftu að bjóða upp á forritun sem sjálfstætt skyldufag í skólum.

Í dag verður dreift þingsályktunartillögu frá Bjartri framtíð sem leggur einmitt þetta til, að við undirbúum okkur fyrir framtíðina með því að setja forritunarkennslu sérstaklega inn í aðalnámskrá grunnskóla.

Hagkerfi framtíðarinnar mun byggjast á tækniþekkingu, skrift og læsi. Skortur á tæknikennslu gerir það snemma að verkum að nemendur útiloka jafnvel tæknigreinar sem hefur þau keðjuverkandi áhrif að viðvarandi skortur er á tæknimenntuðu vinnuafli.

Vitundarvakning um mikilvægi tæknikennslu hefur nú þegar skilað sér inn í aðalnámskrá margra nágrannalanda okkar en mikið vantar upp á að hlutur forritunarkennslu í aðalnámskrá íslenska grunnskólans sé í samræmi við mikilvægi slíkrar kennslu.

Samfélagslegur ávinningur af verkefninu yrði mikill. Með því að efla tæknimenntun á öllu grunnskólastigi skólakerfisins skapast gríðarleg verðmæti fyrir íslenskt atvinnulíf. En það sem stendur sprotafyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum sem byggja á hugviti helst fyrir þrifum er skortur á vinnuafli í tækni og forritun. Það er einmitt sá iðnaður sem ekki byggir á takmörkuðum auðlindum og getur tryggt þessu landi gjaldeyristekjur til framtíðar.

Eins ýtir kennsla í forritun undir fjölbreytt námsframboð og líklegra er að ólíkir nemendur fái að njóta sín og finni til styrkleika sinna snemma með tilheyrandi sjálfsstyrkingu og heilbrigðri sjálfsmynd.

Mig langar því að spyrja hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra: Er hann tilbúinn til að ryðja brautina fyrir framtíðina með því að tryggja að við búum okkur undir framtíðina með því að kenna börnum tölvuskrift í stað þess að þau séu hlutlausir þiggjendur tækninnar? Við þurfum að halda áfram að sækja þá þekkingu að miklu leyti til útlanda.