145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks.

9. mál
[15:21]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar í örfáum orðum að gera grein fyrir því hvers vegna ég er einn af meðflutningsmönnum þessa ágæta máls sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir er 1. flutningsmaður að. Það er vegna þess að mér finnst full ástæða til þess að Ísland láti til sín taka og móti áætlun um það að taka með stöðugum hætti þátt í því sjálfsagða verkefni alþjóðasamfélagsins að koma til móts við þá miklu neyð sem blasir við fjölda fólks í stríðshrjáðum löndum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Það er hægt að skipta þeim vanda sem við er að etja niður, í fyrsta lagi í flóttamannavanda sem er viðvarandi í veröldinni. Hæstv. félagsmálaráðherra sagði í morgun að um 6 milljónir manna væru á flótta í heiminum. Auðvitað er það rétt, það er eitthvað sem fjöldamörg vestræn ríki, þar á meðal Ísland, reyna að bregðast við með því að vera með áætlanir um viðtöku og móttöku flóttafólks þar sem þeim er veitt aðstoð ýmist til að koma undir sig fótum, til að vera hluti af samfélaginu eða tímabundið þangað til þau geta áttað sig á hver næstu skref eru.

En sá vandi sem nú blasir við í Evrópu vegna ástandsins í Sýrlandi er auðvitað bráðavandi, það er krísa, það er neyðarástand sem blasir við. Þá horfir málið svolítið öðruvísi við. Þá þurfa menn að vera tilbúnir til þess að hafa hraðari hendur og taka málið fastari tökum. Í umræðunni undanfarið hefur það sjónarmið oft heyrst að menn þurfi að vanda sig í þessum efnum og vera tilbúnir til að taka vel á móti þeim flóttamönnum sem hingað munu koma og ég er alveg sammála því. En til þess að hægt sé að taka á móti flóttamönnum og gera það vel þá þurfa þeir auðvitað að ná að halda lífi, að vera í þeirri stöðu að hægt sé að bjarga þeim. Það sem við blasir núna er bara einfaldlega slík krísa að fólk er að deyja við það að reyna að koma sér í öruggt skjól. Það er ástæðan fyrir því að þessi umræða hefur verið svo hávær sem raun ber vitni í Evrópu og hér á landi. Við útidyrnar hjá okkur er fólk að deyja við að koma sér í skjól. Það er auðvitað það sem við erum að bregðast við og þá þurfa menn auðvitað ekki að taka langan tíma til að bregðast við. Evrópusambandið tilkynnti í dag um áætlun sína um það hvernig það hyggst skipta niður flóttamönnum sem komnir eru til Evrópu og hvert land tekur sitt. Það er dálítið eftirtektarvert, finnst mér, að það skuli taka Evrópusambandið, sem allir hafa gagnrýnt í mjög mörg ár fyrir það að vera mjög seinlegt skrifræðisbákn, skemmri tíma til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin en ríkisstjórn Íslands. Það hlýtur að segja ákveðna sögu og það hlýtur að vera umhugsunarefni.

Nú eru þau sjónarmið uppi í íslensku samfélagi að Ísland sé ekki í stakk búið til að taka á móti fleiri flóttamönnum eða bregðast neitt sérstaklega við. Sú skoðun er reyndar ekki útbreidd og á sér ekki mjög marga fylgismenn miðað við skoðanakannanir. Ef þessi skoðun er uppi á borðum innan ríkisstjórnar Íslands þá væri það auðvitað heiðarlegra af ríkisstjórninni að gera einfaldlega grein fyrir því og starfa í samræmi við það.

Ég var mjög vongóður í síðustu viku þegar hæstv. forsætisráðherra tilkynnti um það að hann ætlaði að stofna ráðherranefnd í þessu skyni. Ég bjóst við því að í sömu viku mundu koma einhverjar tillögur frá þeirri nefnd en ég heyri hins vegar á umræðunni hér að hún ætlar að funda á morgun. Gott og vel. Þá hlýtur að koma niðurstaða á þeim fundi á morgun. Það væri reyndar mjög ákjósanlegt að fá að vita hversu mikið sú nefnd hefur fundað frá því að hæstv. ráðherra tilkynnti um stofnun hennar.

Stuttu eftir þetta komu fram þau sjónarmið frá hæstv. fjármálaráðherra, sem er hitt höfuð ríkisstjórnarinnar, að við hlytum að geta gert meira í þessum efnum en ákveðið hefur verið og það var mjög gott að heyra það líka. Um helgina bárust reyndar þær raddir frá talsmönnum ríkisstjórnarinnar að það kæmi hins vegar ekki til greina að Evrópusambandið mundi ákveða hversu margir það væru sem kæmu til Íslands. Mér er reyndar ekki kunnugt um það að Evrópusambandið hafi ætlað að ákveða það eða það sé eitthvert sérstakt mál í þessu samhengi. Að sama skapi þótti mér mjög undarlegt að heyra málflutning hæstv. forsætisráðherra í gær þar sem hann sagði að sá fjöldi sem tekið yrði á móti gæti hlaupið á tugum vegna þess að ég veit að 50 manns eru tugir og það er sú ákvörðun sem gekk svolítið fram af íslenskum almenningi í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin. Það væri kannski ekki mjög rausnarlegt af Íslendingum í ljósi þeirrar stöðu að ætla að taka við 50 manns. Ég hef stundum sjálfur haft í flimtingum að þegar mín ævisaga kemur út, sem ég hef ákveðið að muni hljóta titilinn Betur fór en á horfðist og vona að ég geti staðið við það, muni hún seljast í tugum eintaka. Punkturinn í brandaranum er sá að tugir eintaka sé kannski ekki svo ýkja mikið. Tugir flóttamanna í þessu samhengi, í ljósi þeirrar neyðar sem uppi er, í ljósi þess fjölda sem kominn er til Austurríkis, til Þýskalands, er hraksmánarlegur að mínu mati. Það dugar ekki.

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum með svör hæstv. félagsmálaráðherra í morgun þegar hún var spurð út í þessi efni. Ég fékk ekki betur séð en hæstv. félagsmálaráðherra hefði ákveðið að taka tíma í að bera saman hversu mörgum flóttamönnum hefði verið tekið við á þessu ári og hversu mörgum á síðasta kjörtímabili, rétt eins og þetta mál snerist um einhvers konar frammistöðukeppni á milli stjórnarinnar sem er núna við völd á Íslandi og þeirrar sem var síðast. Það er bara ekki þannig. Þetta er engin keppni í gæsku. Þetta er engin frammistöðukeppni um það hvor ríkisstjórnin hafi tekið á móti fleirum, alls ekki. Nú er uppi krísa í Evrópu, það er gríðarlegur fjöldi manns á vergangi, börn eru að deyja á leið sinni hingað. Þá verða menn einfaldlega að vera tilbúnir til þess og hafa getu til þess að fara upp úr þessu hefðbundna argaþrasi, minn flokkur er betri en þinn, og gera eitthvað í málunum. Og ef þeir eru á móti því þá eiga þeir ekki að þykjast vera fylgjandi því að gera þetta og gera síðan ekki neitt og þæfa málið þangað til það er orðið of seint og þangað til aðrir eru búnir að leysa það fyrir okkur vegna þess að það er sú staða sem blasir við núna. Þess vegna vildi ég taka þátt í þessari umræðu hérna um þetta góða mál sem er auðvitað tillaga um það að búa til áætlun, tillaga um það að vanda sig, þetta er tillaga um að gera þetta vel. En þetta er líka ákall. Þetta endurspeglar þann vilja sem er á meðal þjóðarinnar að gera meira en ákveðið hafði verið vegna þess að getan er til þess í íslensku samfélagi, það vitum við öll mætavel, og þá þarf að bregðast hratt við og gera þetta þannig að það sé myndarskapur á því.

Ég vil í þessum fáu orðum lýsa yfir miklum stuðningi við þetta mál og að sama skapi lýsa því yfir að mér þykir það mjög leiðinlegt að engir fulltrúar stjórnarinnar skuli styðja þetta mál eða alla vega ekki þannig að þeir séu meðflutningsmenn á þessu máli. Það er ekkert í þessu máli sem ætti að fela í sér einhverja uppgjöf eða undanlátssemi af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það er verið að álykta að fela ríkisstjórninni að hefja þegar í stað undirbúning á móttöku flóttamanna, kvótaflóttafólki til landsins á næstu þremur árum. Það er ekkert óðagot hér á ferðinni þannig að það er undarlegt að mínu mati. Þetta mál var líka kynnt til sögunnar áður en sú mikla umræða hófst sem hér er á ferðinni þannig að hér er ekki um að ræða einhver handahófskennd viðbrögð stjórnarandstöðunnar. Þetta er tillaga sem er vel hugsuð og hún ætti að vera þannig að sem flestir ættu að geta fellt sig við efni hennar og komið með í það að styðja þetta góða málefni.