145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

upplýsingalög.

19. mál
[17:28]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er langt síðan hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hætti að koma mér á óvart, en mér finnst að hér reki hvert sögulegt atvikið annað. Mér finnst það sögulegt þegar hv. þingmaður stígur hér fram með tveimur öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og er engu líkara en á þá hafi vaxið sósíaldemókratískir píratavængir. Hv. þingmaður leggur fram frumvarp sem hann segir að sé beinlínis til að auka gegnsæi og koma í veg fyrir spillingu. Ég segi: Fyrir hönd okkar hinna sósíaldemókratísku pírata, velkominn í hópinn, hv. þingmaður.

Ég veit að hv. þingmaður hefur alltaf verið skeleggur talsmaður einstaklingsfrelsis og litla mannsins í viðskiptum en leyfist mér þá á þessum góða degi að gagnálykta frá máli þingmannsins. Hv. þingmaður eyddi löngu og glæsilegu máli í að reifa hvað þetta væri mikilvægt fyrir þá sem væru litlir og smáir og vildu koma sér á framfæri. Gagnvart hverjum? Gagnvart einhverjum spilltum kommissörum í kerfinu? Leyfist mér þá að gagnálykta að hv. þingmaður sé þeirrar skoðunar að innan okkar kerfis, og ég ætla ekki að segja í skjóli neins sérstaks flokks en væntanlega þeirra sem hér hafa lengstum farið með völdin, hafi þrifist háttsemi sem er þannig að mönnum sé bægt frá nema þeir séu í réttum færum gagnvart þeim sem með völdin fara. Ég bara spyr í alvöru. Það hlýtur að vera eitthvert andlag við þessa tillögu. En til að ég taki það alveg skýrt fram, þá er ég sammála tillögunni.

Ég hef tvær spurningar til hv. þingmanns. Hann fór nokkrum orðum um það að tillagan ætti ekki að ná yfir félagasamtök eða sjálfseignarstofnanir sem eru að stóru leyti reknar af almannafé. Hvers vegna ekki? Að öðru leyti til að taka af vafa um afstöðu mína, (Forseti hringir.) þá er ég sem leir í höndum þingmannsins gagnvart þessu máli og til að sýna það í verki ef hv. þingmaður vill mitt atkvæði til að það fari til fjárlaganefndar og til að það sé betra fyrir málið þá er ég til í það.