145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert sem mælir með því að í þetta verði ráðist, segir hv. þingmaður, og ég hygg að það sé hárrétt. Mér hefur raunar virst þetta mál liggja einhvern veginn með þeim hætti að í þingsölum sé einn stuðningsmaður þessa máls, flutningsmaðurinn, hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson, en 62 þingmenn eða svo ýmist afar andvígir eða styðji að minnsta kosti ekki málið með neinum hætti. Ég man satt að segja varla til þess á þeim 12 árum sem ég hef verið hér að ráðherra hafi verið jafn einmana í málflutningi og hér er og farið fram gegn jafn miklum og almennum andmælum og hér hafa verið uppi.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður kunni einhverja skýringu á því hvers vegna ráðherrann kemur fram með þetta annað þingið í röð eftir að málið strandaði farsællega í nefnd á fyrra þingi. Hvers vegna er svo mikil áhersla lögð á þetta sem er í raun formsatriði að fjölmargir dagar af dagskrá þingsins eru teknir í ekki veigameiri fyrirætlanir eða hugsjónir ráðherrans á þessu sviði? Væri ekki miklu frekar ástæða til þess fyrir þingið að fara yfir skammarlega lág framlög okkar til þróunarsamvinnu og hvernig megi auka þau en að eyða öllum þessum tíma í það hvernig megi pakka Þróunarsamvinnustofnun ofan í einhverja skúffu í ráðuneytinu sjálfu?