145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Aðeins örfá orð um þetta vonda mál hér við lok umræðunnar og ég vísa að öðru leyti til ræðu minnar um efnið á síðasta þingi. Það er með öllu óskiljanlegt að hæstv. utanríkisráðherra sé enn að flytja þetta mál hér einn gegn 62 þingmönnum því að hann á augljóslega engan stuðning neins staðar við málið en knýr það á dagskrá dag eftir dag. Það er auðvitað algjörlega óskiljanleg ákvörðun af hálfu ráðherrans því eins og sagt er á ensku „if it's not broken why fix it“ — ef ekkert amar að því ætti þá að laga það, mætti það útleggjast á íslensku.

Þróunarsamvinnustofnun hefur unnið starf sitt með miklum ágætum og hróður hennar hefur borist víða. Þar er unnið gott starf og algerlega þarflaust að leggja þá stofnun inn í ráðuneytið.

Það er líka óskiljanleg forgangsröðun í þessum málaflokki þar sem verkefnið hrópar á alla. Við setjum allt of litla fjármuni í þróunarsamvinnu. Horfið hefur verið frá áætlunum um að auka hana upp í það sem við höfum skuldbundið okkur til alþjóðlega. Í stað þess að vera að vinna af metnaði að þeim áformum eða að því að auka framlög í þennan málaflokk þannig að við uppfyllum okkar alþjóðlegu skilyrði þá er ráðherrann upptekinn við það að reyna að ná þessu inn í ráðuneytið til sín.

Hvers vegna er það vond hugmynd? Það er meðal annars vond hugmynd vegna þess að með því eykst hætta á pólitískri spillingu í meðferð fjármuna sem þjónar innanríkispólitískum hagsmunum eða fyrirtækjahagsmunum, en ekki hagsmunum þeirra sem eiga að njóta aðstoðarinnar.

Í öðru lagi vegna þess að það sem helst hefur forðað okkar litla landi frá pólitískri spillingu eru sterkar sjálfstæðar stofnanir utan ráðuneytanna. Um það eru fyrirliggjandi margar góðar rannsóknir.

Það var áhersluatriðið í rannsóknarskýrslu Alþingis að standa vörð um fagmennskuna og halda ráðherraræðinu í skefjum. Hér er verið að fara í þveröfuga átt og þess vegna full ástæða til þess að leggjast gegn málinu.

Síðan eykur það auðvitað enn á ástæðuna fyrir þingið til að setja niður fótinn þegar ráðherrann kýs að senda forstjóra Þróunarsamvinnustofnunar sérstaka tilkynningu um það að hann eigi ekki kost á endurráðningu, eftir að stofnunin og starfsmenn hennar hafa talað gegn þessum hugmyndum hér í umfjöllun í þinginu. Það eru auðvitað tilburðir til þess að senda skilaboð til embættismanna að þeir séu ekki frjálsir að skoðunum sínum, eða geti goldið fyrir þær vegna hins pólitíska valds sem ráðherrann fer með. Það er atriði sem þingið verður að mótmæla alveg sérstaklega.

Kant segir í ritgerð sinni Hvað er upplýsing? að stærsta framfaraskeið í okkar heimshluta hafi hafist með því þegar embættismönnum var leyft að hafa sjálfstæðar skoðanir, var leyft að hafa aðrar skoðanir en valdhafarnir, vegna þess að það hóf gagnrýna umræðu og skoðanaskipti sem leiddu af sér framfarir. Allri viðleitni við það að reyna að beita menn þöggun eða senda mönnum skilaboð um það að ef þeir ekki lúta vilja ráðherrans þá muni þeir ekki geta fengið endurráðningu eða gjaldi þess með einhverjum slíkum hætti, slíku verðum við að taka mjög föstum tökum hér í þinginu.

Virðulegur forseti. Ég vona að afdrif þessa máls verði hin sömu og á síðasta þingi, að það sofni farsællega í utanríkismálanefnd og komi aldrei hér aftur í þingsalinn og síst af öllu að það verði tekið til afgreiðslu hér endanlega eða samþykkt í dag, enda er það bara einn maður í þessum 63 manna sal sem hefur áhuga á því að það nái fram að ganga og engin ástæða til þess að hann komist fram með það með svo mikla andstöðu, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu sem raun ber vitni.