145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs í andsvari til að eyða þeim misskilningi hæstv. fjármálaráðherra að almenn samstaða ríki um þetta frumvarp eða meginatriði þess. Því fer fjarri og það á við bæði innan þings og utan, í samfélaginu þar sem eru víða miklar og vaxandi efasemdir um þetta frumvarp. Ég vil fyrir mitt leyti lýsa yfir slíkum efasemdum og gagnrýni sem ég á eftir að koma með fram í umræðu um málið, bæði við 1. umr. og síðar ef þetta frumvarp verður ekki lagt á ís. Ég tel að fjárhagslegar áherslur í frumvarpinu séu tvímælalaust á kostnað samfélagslegra þátta því að þegar allt kemur til alls erum við að reka samfélag en ekki fyrirtæki. Ef ég væri að reka fyrirtæki sem ég ætti kynni ég að vera hæstánægður með þær áherslur sem hér eru settar fram en sem þjóðfélagsþegn er ég það ekki.

Samkvæmt þessu frumvarpi skal sett á laggirnar fjármálaráð til að fylgjast með fjármálalegum þáttum — en hvar er velferðarráðið? Við erum ekki bara bundin af fjárhagslegum þáttum heldur líka ýmsum þáttum í rekstri velferðarþjónustunnar. Þannig er það í heilbrigðiskerfinu og í velferðarkerfinu almennt. Það er hvergi að finna stafkrók um slíka þætti.

Ég vísa líka til 7. gr. frumvarpsins um heimildir ríkisins til hallareksturs. Ég tel afar misráðið að festa slíkt í lög eins og hér er gert og er ég þá ekki að tala fyrir öðru en að við reynum að hafa fjárlög hallalaus, að sjálfsögðu. Síðan geta komið áföll og ég tel að það svigrúm sem veitt er í þessum lögum, því að (Forseti hringir.) svigrúm er veitt, sé ekki nægjanlegt og ég tel afar misráðið að festa þetta í lög eins og hér er gert ráð fyrir að boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem var stefnumótandi og ráðgefandi.