145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að gera nokkrar athugasemdir við þetta mál í 1. umr. á þessu haustþingi. Fyrst vil ég segja að þegar hæstv. framsögumaður, hæstv. ráðherra, vitnaði til almennrar samstöðu í upphafi máls sín áðan held ég að það megi til sanns vegar færa að nokkuð mikil samstaða er um almenna markmið laganna, sem er auðvitað að tryggja góða stjórn opinberra fjármála, ábyrga efnahagsstjórnun, og það sé mikilvægt að hugsa stefnumörkun í opinberum fjármálum til langs tíma. Ég held að um þetta markmið sé góð samstaða í þinginu, að því hafa ýmsir komið, hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn úr ólíkum flokkum. Ég held að þess vegna sé ekki síst mikilvægt að við náum að ræða þessi mál hér þannig að við getum náð sem bestri samstöðu um þau. Það eru nokkur atriði samt sem áður sem mér finnst ástæða til að alla vega varpa fram spurningum um eða gera athugasemdir við og vonast til þess að það verði skoðað í meðferð þingsins.

Eins og komið hefur fram breyttist þetta mál eiginlega úr því að vera endurskoðun á fjárreiðulögum í það að vera nýtt heildarkerfi um opinber fjármál sem byggir á langtímahugsun. Það eru nokkur atriði sem mig langar að nefna hvað það varðar. Í fyrsta lagi er verið að hugsa um að breyta verklagi í þinginu og færa okkur meira yfir í það sem við getum kallað rammafjárlög, vera ekki að fást við fjárveitingar til einstakra stofnana eða liða þannig að við séum til dæmis ekki, eins og kom fram í máli hv. þm. Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur áðan, að fjalla um fjárveitingar til einstakra framhaldsskóla heldur ræði þingið almenna stefnumörkun, fjárheimildir til málaflokksins, til málaflokksins framhaldsskólar, til málaflokksins rannsóknir, eða hvernig sem við hugsum það.

Það eru þó spurningar sem mér finnst mikilvægt að svara. Það er auðvitað ljóst að eftirspurn er eftir því að hv. þingmenn hafi mjög góða yfirsýn yfir það hvernig fjármunirnir skiptast á milli einstakra stofnana. Það er rætt að það komi fram í fylgiriti og þar sé hægt að breyta þeirri skiptingu. Mér finnst enn þá spurningum ósvarað um nákvæmlega hvaða gildi þetta fylgirit mun hafa innan þingsins og hvernig á að standa að breytingum á því og hvort hættan sé þá ekki sú að við hverfum aftur úr rammaáætluninni og allt fari að snúast um fylgiritið og fjárveitingar til einstakra stofnana, svo maður segi það nú.

Mér finnst mikilvægt að við veltum því fyrir okkur hvernig við sjáum fyrir okkur meðferð þingsins og hvort það hafi verið rætt innan hv. fjárlaganefndar á síðasta þingi þegar það var til meðferðar hvernig fólk sæi fyrir sér að umræðan yrði um þessa einstöku liði. Vissulega er rétt að það hefur oft verið bragurinn á fjárlagaumræðunni hér að umræðan hefur einmitt farið að snúast um mjög smáar fjárhæðir til einstakra liða en ekki langtímasýnina í stóru málaflokkunum. Þess vegna held ég að það sé mjög mikilvægt sem hér kemur fram, að gerðar séu áætlanir til lengri tíma þar sem pólitísku línurnar eru lagðar. Ég held að það sem þurfi að breytast sé, eins og kom fram hjá hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, að þar fari miklu meiri pólitísk umræða fram, því að þá erum við að leggja línurnar innan þess hvernig við viljum forgangsraða fjármunum hins opinbera. Teljum við mikilvægt að auka fjármuni í rannsóknir og nýsköpun, svo dæmi sé tekið?

Ég held að umræðurnar um langtímaáætlunina þurfi að fá meira vægi í störfum þingsins til þess að við getum tekist á um áherslurnar. Það er alveg rétt. Mér finnst það vera þróun sem við eigum að reyna að sameinast um. Um leið ítreka ég að gagnsæið þarf að vera mikið í því hvernig fjármunirnir skiptast niður á stofnanir. Það mun skapa vinnu. Það mun ekki síst skapa vinnu hjá ráðuneytum við að fylgja því eftir til dæmis að gefa upplýsingar um hvernig fjármununum er útdeilt. Þetta kallar á heilmikið eftirlit.

Það mun líka skapa vinnu inni á Alþingi og ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa talað um að verið sé að auka aðhaldshlutverk Alþingis. Mér finnst mikilvægt að við horfum til þess að Alþingi fái nauðsynlegan stuðning til þess að geta sinnt því hlutverki sínu. Það er ekkert launungarmál að ekki er nægjanlega vel búið að því að Alþingi geti sinnt því hlutverki sínu núna. Það á við um fjármálin til dæmis. Það tengist öðrum málum, til að mynda þegar hér er verið að fara yfir kostnaðarmat á frumvörpum, þingsályktunartillögum sem ekki eru kostnaðarmetnar og annað slíkt. Allt þetta þarf að bæta á þinginu. Ég held að ef við ætlum að ræða þetta mál og ná fram einhverjum breytingum á því hvernig við forgangsröðum fjármunum hins opinbera til lengri tíma sé ekki nokkur spurning að Alþingi þarf að fá miklu meiri stuðning til þess að geta sinnt hlutverki sínu. Ég held að horfast þurfi í augu við það og það þarf að fylgja umræðunni um þetta frumvarp að við setjum okkur einhver markmið í þeim efnum.

Síðan er það hitt stóra málið sem mig langar að vekja máls á, eða reyndar eru tvö önnur mál sem mig langar að vekja máls á. Það er annars vegar 7. gr. sem er skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Það er nokkuð sem hefur verið rætt og verið gagnrýnt, t.d. af hagfræðingum á borð við Þórólf Matthíasson sem telur þetta ekki skynsamlegt. Auðvitað hljótum við að velta því fyrir okkur hvort fimm ára rammi til dæmis, þar sem heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu, sé ekki ansi þröngur og hvað gera skuli ef áföll ríða yfir samfélagið. Verður þá nauðsynlegt að kippa þessum lögum úr sambandi? Verður tilhneigingin að fara einhverjar hjáleiðir eins og við þekkjum í kringum Maastricht-skilyrðin sem eru sett í góðum tilgangi, þ.e. að tryggja ákveðinn efnahagslegan stöðugleika innan Evrópusambandsríkjanna? Við vitum að það hafa verið farnar hjáleiðir.

Ætlunin er, og það er hitt atriðið sem mig langar að nefna, að fjármálaráðið hafi ákveðið eftirlit með því að ekki séu farnar hjáleiðir, að þetta séu raunhæfar áætlanir og allt sem því tengist. Þórólfur Matthíasson, áðurnefndur prófessor, hefur gagnrýnt af hverju ekki er þá farið í það að setja á laggirnar þjóðhagsstofnun sem hafi þetta eftirlitshlutverk með hendi sem sjálfstæð, óháð stofnun sem veiti talsvert virkt aðhald á það að ríki standi undir langtímaáætlunum sínum.

Ég held að það skipti máli að við svörum þeim spurningum á þingi hvort við teljum að þessi markmið séu raunhæf, hvort við sjáum fyrir okkur kringumstæður — því að mörg okkar sem hér erum voru auðvitað í þeim kringumstæðum fyrir ekki mjög löngu síðan að allt fór á hliðina og sett voru neyðarlög — þar sem þessi lög yrðu tekin úr sambandi með einhverjum hætti eða hvernig nákvæmlega við mundum vinna úr því. Þó markmiðin séu góð finnst mér það fullkomlega gild spurning sem hagfræðiprófessorinn setur fram, hvort það sé þá ekki nægjanlegt að setja slík markmið fram í áætlun og hafa virkt apparat, einhverja þjóðhagsstofnun eða fjármálaráð — ég ætla ekki að leggja mat á það hvort fjármálaráð næði að uppfylla það hlutverk — fengjum eitthvert slíkt apparat til þess að hafa eftirlit með fjárlagagerð hvers árs og hvort við séum að setja niður raunhæfar áætlanir til að ná fram þeim stöðugleika sem ég held að sé markmiðið sem við erum öll sammála um.

Sú gagnrýni hefur líka verið sett fram að verið sé að takmarka svigrúm ríkisins á hverjum tíma til að iðka það sem er stundum kallað keynesísk hagstjórn, þ.e. koma með innspýtingu í gegnum ríkið þegar illa árar í efnahagslífinu til þess að örva efnahagslífið.

Við skulum heldur ekki gleyma því að þessi 2,5% eru umtalsverðir fjármunir. Við skulum átta okkur á því að þó að þetta séu lágar prósentutölur eru þetta umtalsverðir fjármunir. Mér finnst mikilvægt að farið sé yfir það hvort við teljum að nægjanlegt sé að hafa þetta 2,5% svigrúm eða hvort við teljum að tíminn sé nægjanlegur, þ.e. fimm ára tímabil.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu sérstaklega. Ég held að þetta séu stóru spurningarnar sem blasa við okkur í frumvarpinu. Svo ég dragi þær saman eru það í fyrsta lagi vinnubrögð þingsins, hvernig við ætlum að ná því fram og hvaða stuðning Alþingi þarf til þess að geta tekið að sér aukið aðhaldshlutverk. Mér finnst mikilvægt að við ræðum það samhliða þessu frumvarpi, þannig að verði það að lögum sitji þingið ekki næstu fimm árin og kvarti undan því að það þurfi aukinn stuðning til að fylgja lögbundnu hlutverki sínu. Mér finnst það mikilvægt.

Í öðru lagi eru það skilyrðin í 7. gr. og hvort við teljum að þau sé of stýrandi út frá þeirri reynslu sem við höfum haft hér. Ég hefði talið að gott væri að fá það fram í þessari umræðu. Kannski getur hæstv. ráðherra sagt okkur frá því, ef við förum 30 ár aftur í tímann í íslenskri efnahagssögu, hvort við höfum staðið undir þeim markmiðum sem þarna eru sett. Þá er ég náttúrlega ekki einungis að tala um óvenjulegt ástand eins og árið 2008 heldur ef horft er lengra aftur í söguna. Höfum við staðið undir markmiðunum á einhverjum tímapunkti eða er sagan sú að við höfum ekki gert það?

Það er vafalaust hægt af hálfu ráðuneytisins að taka slíkt saman. Ég held að það væri mjög áhugavert fyrir þingmenn að sjá hvert skuldahlutfallið hefur verið, heildarskuldirnar og heildarjöfnuðurinn, þannig að við getum lagt mat á hvað þarf til til að ná þeim markmiðum sem hér eru lögð til.

Síðan er það þriðji punkturinn sem er fjármálaráðið, en lagt er til að fjármálaráð leggi mat á fjármálastefnu og fjármálaáætlun. Fylgjum við þeim grunngildum sem eru birt í þessum lögum? Ég velti því fyrir mér og spyr sömu spurningar og hagfræðiprófessorinn: Er eðlilegra að við horfum á sjálfstæða stofnun, þjóðhagsstofnun, sem gegnir þessu hlutverki, sem standi fjær málinu, sem hafi víðtækara hlutverk, fremur en að við setjum markmiðin með þessum mjög svo skýra hætti í lög?

Ég vil fyrst og fremst eiga málefnalega umræðu um það hvernig við náum sem best saman um markmiðið, sem mig grunar að flestir séu sammála um, en ég held að mikilvægt sé að við áttum okkur líka á því að við viljum geta haft ákveðið svigrúm, ég nefndi áðan sem dæmi til innspýtingar þegar illa árar, að hið opinbera geti fjárfest þegar atvinnuvegafjárfesting liggur niðri. Hvernig ætlum við að tryggja að það verði hægt? Er það hægt út frá þeim viðmiðum sem hér eru lögð til? Við þurfum að hafa söguleg gögn til að geta glöggvað okkur á því. Ég mælist því til þess að það verði skoðað hjá hv. fjárlaganefnd, að sagan verði tekin og skoðuð 30–40 ár aftur í tímann þannig að við getum séð hvort við höfum staðið undir viðmiðunum, hvaða breytingar við þurfum að horfa fram á til að standa undir þeim, hvort ástæða sé til þess að endurskoða þau út frá sögunni.

Herra forseti. Ég hef ekki meira að segja um þetta mál í 1. umr. en ég held að mikilvægt sé að við reynum að vekja strax máls á því sem við teljum að þurfi frekari skoðunar við.