145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[19:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta ákvæði sem er nýtt um samskipti við sveitarstjórnarstigið er kannski auðveldara að færa í orð en að framkvæma þannig að allir verði á eitt sáttir um hvernig sú framkvæmd eigi nákvæmlega að vera. Það sem ég er að reyna að koma orðum að er að þetta á eftir að slípast til í framkvæmd. Þar verður aðalatriðið að menn geri sér grein fyrir því að það kunni að vera erfitt að ná fullkominni samstöðu, en því mikilvæga skrefi hefur verið náð með stuðningi sveitarstjórnarstigsins við þetta ákvæði að menn eru búnir að skapa vettvang til þess að eiga þetta samráð. Það er búið að formgera það í þessum frumvarpstexta að þetta samráð skal eiga sér stað. Þar eiga menn að ræða um það hverjar aðstæður eru í efnahagslífinu og hvað hvort stigið þurfi að leggja af mörkum til þess að ná þeim markmiðum sem menn eru þó sammála um að séu eftirsóknarverð. Nákvæmlega hvernig það gerist kann að verða efni í ágreining og það kann að vera rétt hjá hv. þingmanni að fyrir fram sé líklegt að sveitarstjórnarstigið muni segja: Ef þetta eru kröfurnar þá þarf frekari aðstoð. En það er þá kannski bara fínt, þá kemur það fram og verður jafnvel tilefni umræðu hér. Við tókum kannski svolítið sýnishorn af slíkri umræðu fyrr í dag þar sem við vorum að ræða um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ég held samt að þó að þetta kunni að verða dálítið flókin framkvæmd þá höfum við náð ágætlega utan um þetta.

Svo ætla ég ekki að draga fjöður yfir það að mikilvægt er að 7. og 10. gr. saman fái mjög vandaða meðferð í nefnd og greinargerð fjárlaganefndar verði skýr. Ég vil bara að það skolist ekkert til varðandi það að það þarf (Forseti hringir.) eitthvað verulega mikið að breytast til þess að menn fari að virkja 10. gr., það verður að vera þannig, (Forseti hringir.) ella munu menn grípa í hana að tilefnislitlu.