145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Spurt er hvort ég sé hlynntur málinu. Nei, ég er því mjög andvígur. Varðandi 7. gr. þá legg ég til að hún verði numin brott, hún verði tekin út. Ég tel að þetta eigi ekki að festa í lög með þessum hætti. Það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki stefna að þeim markmiðum sem þarna er sett á blað um að hafa sem minnsta skuldsetningu hjá hinu opinbera. Ég hef sýnt það í verki að ég er hlynntur því, ég vil það. Ég tók þátt í því í tíð síðustu ríkisstjórnar að skera niður útgjöld og hækka skatta til að bæta skuldastöðu ríkisins þannig að það er allt annar handleggur.

Við erum að tala um hlutfall af landsframleiðslu. Þegar hún dregst saman þá getum við einmitt þurft að bæta í í anda títtnefnds Keynes. Ég er andvígur því að setja okkur þennan lagalega ramma. Ef ég horfi til þess sem við höfum verið að reyna að gera á undanförnum árum þá er það að vera skynsöm í fjármálastjórninni. Löngum var reynt að núa vinstri mönnum því um nasir að við værum óábyrg og vildum eyða og ekki afla. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sýnt það með tillögum sínum að við höfum viljað gera þetta tvennt í senn, að afla fjármuna fyrir þá eyðslu sem við teljum að ríkið eigi að ráðast í. Við erum því að tala fyrir ráðdeild, að sjálfsögðu gerum við það og ég geri það. Ég er ekki að mæla gegn henni en ég er að andmæla því að vera settur í handjárn, pólitísk handjárn með þeim hætti sem hér er lagt til og ákvörðunarvaldið sé fært inn í innviði framkvæmdarvaldsins eins og einnig er lagt til í þessu frumvarpi.