145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að halda mig við það að fullyrða að við á vinstri kantinum höfum reynst ábyrgari í fjármálum (Gripið fram í.) en hægri kanturinn hefur verið á undanförnum árum. Það er bara veruleikinn og það á að segja hann eins og hann er. Þannig hefur það verið. Ég vísa til reynslunnar í aðdraganda hrunsins og síðan eftir hrunið og dæmið menn af verkunum.

Hvað á að nota ef við höfum ekki lagasetninguna til að styðjast við, ef við látum ekki lögin knýja okkur til þess? Ég skal segja hv. þingmanni hvað á að nota. Skynsemi. Það á að nota skynsemi. Og hverjir eiga að gera það? Það gerum við að sjálfsögðu hér í þessum sal með þeim ákvörðunum sem við tökum um hvernig við verjum fjármunum ríkisins úr sameiginlegum sjóðum til velferðarmála eða til annarra þátta á vegum hins opinbera. Við eigum að gera þá kröfu til sjálfra okkar að við sjáum til þess að afla fjár að sama skapi þannig að við séum ekki að steypa okkur í skuldir.

Síðan er ég einfaldlega að segja að ferlið sem við erum að búa til er líklegt að mínum dómi til að verða á kostnað velferðar, á kostnað smárra stofnana, á kostnað smárra byggðarlaga, ég held að það verði fórnarlömbin ef þetta ferli sem hér er verið að leggja til verður að veruleika í íslenskum landslögum.