145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[16:04]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Held ég nú áfram þar sem frá var horfið í fyrri ræðu minni. Ég fagna því að hæstv. ráðherra hyggst reyna að koma á samstarfi Norðurlandanna við lyfjainnkaup. Það er hugmynd sem verið hefur á kreiki um nokkurt skeið og vonandi er hægt að ná einhverjum árangri í því núna. Mér heyrist nú vera samhljómur meðal þingmanna um þær áherslur.

Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni að eftir því sem mér skilst og hef heyrt hafi Íslendingar dregist aftur úr þegar kemur að því að taka upp ný lyf. Það er slæmt og ég held að það þurfi ekki að vera þannig. Mér finnst það áfellisdómur yfir íslenska heilbrigðiskerfinu þegar við höfum dæmi um nýtt lyf sem læknar sjúkdóm í yfir alla vega 90% tilvika, held ég, og nágrannaþjóðirnar hafa tekið það til notkunar, að það sé ekki tekið upp hér.

Hvað er þá að? Ég greini tvennt í umræðunni sem mér finnst að þurfi að laga. Það er annars vegar það að hlaupið er fram og sagt: Lyfið er mjög dýrt. Þetta eru 1.000 sjúklingar og það kostar 10 milljarða að lækna þá alla. Það er villandi. Það eru mörg lyf mjög dýr og við umgöngumst dýr lyf þannig í heilbrigðisþjónustunni að þeim er ekki dembt á alla sjúklingana sem eru með viðkomandi sjúkdóm. Gerð er áætlun um notkun svona dýrra lyfja. Það yrði aldrei þannig að farið yrði í að lækna alla sem eru með lifrarbólgu C, ef ég skil það rétt, það er enginn að tala um það þannig að mér finnst það vera villandi.

Hitt er það, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom inn á, að það verður auðvitað að gera kostnaðar- og ábatagreiningu; hvort er dýrara fyrir samfélagið að allir þeir sem eru með lifrarbólgu C haldi áfram að vera (Forseti hringir.) með lifrarbólgu C, og eyðileggi lifrina (Forseti hringir.) í sér á endanum og þurfi jafnvel lifrarskipti, (Forseti hringir.) eða að taka upp þetta lyf og gera áætlun um hvernig eigi að nota það?