145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[16:50]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar fyrst að varpa fram þeirri spurningu sem við ættum ef til vill að gera í upphaf hverrar umræðu um ný þingmál, sem er: Af hverju þessi lög? Af hverju þurfum við sérstök lög um náttúruvernd? Hvaða ályktun getum við dregið af þeirri staðreynd að slík lög eru í gildi og að við höfum á síðustu árum varið allmiklum tíma í að ræða og takast á um innihald þeirra? Það er vegna þess að við sem hér störfum erum öll sammála og við öll sem byggjum þetta samfélag erum held ég sammála um að þörf sé á sérstakri löggjöf sem verndar náttúruna. Við þurfum þá að velta fyrir okkur af hverju þurfi sérstök lög til þess að vernda eitthvað sem allir eru sammála um að okkur beri að vernda. Gerist það ekki bara af sjálfu sér? Er þetta ekki óþörf vinna? Þessu má auðvitað svara og hefur svo sem verið svarað mjög oft með því að horfa í staðreyndir. Það er nefnilega þannig, ekki bara á Íslandi heldur um heiminn allan, að hagkerfi mannanna starfa eftir lögmálum sem brjóta í bága við vistkerfi jarðar. Við höfum á mjög mörgum sviðum skaðað náttúruna og umhverfi okkar í krafti gríðarlegrar tæknigetu. Það sem hér er á ferðinni er tilraun til þess að passa upp á það sem við erum öll sammála um að sé verðmætt og skipti okkur miklu máli.

Við höfum gert ýmsar tilraunir til lausna á þeim vandamálum sem blasa við heimsbyggðinni. Ríó frá 1992 er mjög gott dæmi um það. Það var samningur um sjálfbæra þróun sem gerði ráð fyrir því að við mundum umgangast náttúruna og jörðina alla og vistkerfi hennar með þeim hætti að hún væri eins og innstæða sem okkur bæri að lifa af vöxtunum af og við ættum ekki að ganga á innstæðuna. Það sama á við þegar kemur að náttúru Íslands.

Fleiri náttúruógnir eða skaði sem tæknin hefur leitt af sér er t.d. kjarnorkuúrgangur, skordýraeitur, gróðurhúsaáhrif, ósonlagið o.fl. Þetta þekkjum við og höfum verið að takast á við það. Þannig að það eru mýmörg dæmi sem styðja það að menn grípi til sérstakra lagasetningar til þess að passa upp á íslenska náttúru. Hafa menn unnið einhvern skaða á íslenskri náttúru? væri hægt að spyrja á móti. Já, það hefur komið fyrir. Það eru til þekkt dæmi um það, t.d. kísilgúrinn í Mývatni, urriðann í Soginu o.s.frv. Ótalmörg dæmi eru um landsvæði sem hafa spillst vegna þess að menn hafa gengið óvarlega um þau.

Það var mér þess vegna, sem náttúruverndarsinna og þátttakanda og nefndarmanni í umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta kjörtímabili, mikið fagnaðarefni að taka þátt í þeirri vinnu sem fram fór og var undirbúningsvinna að lögum nr. 60/2013. Undanfari þeirrar vinnu var mikill. Það var skrifuð sérstök hvítbók sem útlistaði þau verkefni sem fram undan væru. Það voru haldnir fundir víðs vegar um landið, farið vítt og breitt og sú vinna kynnt og þær hugmyndir sem voru uppi. Loks kom málið fram í þinginu og fór í heilmikla umfjöllun í umhverfis- og samgöngunefnd á síðasta kjörtímabili sem lauk með því að frumvarpið varð á endanum að lögum en gildistöku þess frestað. Ég var reyndar verulega ósáttur við það og má sjá í þingtíðindum að ég var ekki sammála því að fresta gildistökunni. Mér fannst lögin fela í sér mikil framfaraspor, þá sérstaklega þær meginreglur sem felast í varúðarreglunni og hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem var byggð inn í lögin sem við afgreiddum árið 2013.

Það hafa reyndar verið einhverjir fyrirvarar og andmæli og einhverjar hugmyndir uppi um það að þessi lög hafi gengið of langt, að í þeim felist of mikil verndarhyggja og að með samþykkt þeirra og gildistöku hafi sá skilningur svifið yfir vötnum að ekki yrði hægt að gera neitt, það sé bara búið að koma í veg fyrir að menn geti gert eitthvað út af því að þetta sé svo rosalega strangt. Það hefur aldrei verið útskýrt með mjög afgerandi hætti af hverju lögin gengu of langt, að hvaða leyti varúðarreglan skapaði óvissu og hvað þyrfti í sjálfu sér að laga í henni, hvaða afleiðingar hún gæti haft. Það hafa ekki verið sýnd nein dæmi um það, engin rök fylgdu því. Þess vegna skildi ég ekki ákvörðunina þegar tilraun var fyrst gerð til að afturkalla lögin, eins og það var orðað af þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigurði Inga Jóhannssyni. Síðan voru gerðar tilraunir til þess að gera breytingar á varúðarreglunni, þar með talið þeirri tillögu sem liggur fyrir í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar. Ég hef aldrei náð nákvæmlega utan um það hvers vegna það væri nauðsynlegt eða hvað væri hættulegt í fyrri greininni eða orðalagi hennar. Gott og vel. Ég er tilbúinn til þess að hlusta á rök og taka þátt í því að bæta mál ef það má verða til þess að ná að afgreiða þau í meiri sátt.

Ég held að í grunninn liggi á bak við þessa lagasetningu og þetta frumvarp vilji til þess að vernda náttúru Íslands sem er það mikilvægasta í þessu öllu saman. Til þess að það geti gengið þurfa lögin auðvitað að vera skýr. Þá þurfa menn að vita nákvæmlega hvað felst í varúðarreglunni. Það er meðal þess sem fram kom í máli hæstv. umhverfisráðherra hér áðan að fyrri útfærsla hafi falið í sér of mikla óvissu og gæti skapað lagalega réttaróvissu. Það stangast reyndar á við útfærsluna eins og hún er núna. Það er búið að setja niður orðalag á varúðarreglunni, en síðan bætist við ný málsgrein sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Til þess að koma varúðarreglu 1. mgr. til framkvæmdar skal ráðherra setja í reglugerð nánari ákvæði um: … “

Síðan eru talin upp fjögur nokkuð umfangsmikil atriði sem ráðherra á að útfæra í reglugerð. Ég er ekki sammála því, sem hluti af löggjafarvaldinu, að svo mikilvæg regla sé í höndum framkvæmdarvaldsins, að útfærsla hennar sé ekki kláruð af hálfu löggjafans heldur sé bara send í ráðuneytið til þess að verða leyst síðar. Mér finnst það algjörlega ótækt. Ég mun beita mér fyrir því í umhverfisnefnd að við vinnum einfaldlega þessa grein þannig að hún verði ásættanleg og hún verði skýr.

Það má gera ýmsar tilraunir til þess að breyta orðalaginu. Það mikilvæga í þeim efnum er að reglan verði víðtæk, hún verði meginregla og taki ekki bara til stjórnvaldsákvarðana, eins og gert er ráð fyrir í þessari útfærslu, og að hún feli það í sér að skorti á vísindalegri þekkingu eða vísindalegum rökum verði ekki beitt gegn náttúrunni, þ.e. vafi sé ávallt túlkaður náttúrunni í hag. Það er gríðarlega mikilvægt, annars er hætt við því að við endurtökum umhverfisslys á borð við þau sem ég taldi upp í fyrri hluta ræðu minnar, bæði innan lands og á heimsvísu. Skortur á slíkri hugsun varð til þess að menn gripu til aðgerða. Menn notuðu tækni sem þeir sáu ekki fyrir endann á.

Tíminn er ekki mjög langur til þess að fara dýpra í frumvarpið. Mig langar aðeins að drepa niður í þá umfjöllun sem þegar hefur orðið um frumvarpið eins og það er núna og vitna í viðtal sem tekið var við Guðmund Inga Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Landverndar, um að Landvernd vildi að lögin sem samþykkt voru árið 2013 tækju gildi strax. Það er skoðun Landverndar að dregið sé úr náttúruvernd með þeim breytingum sem gerðar hafa verið. Þannig var t.d. í lögunum sem samþykkt voru 2013 gert ráð fyrir því að styrkja vernd sérstakra jarðminja eins og eldhrauna, gervigíga, sjávarfitja og ákveðinna stærða af votlendi. Ef lögin frá 2013 hefðu gengið í gildi þá hefði verið erfiðara að raska þessum svæðum. Þetta hefur að mestu leyti verið fært aftur til baka í það horf sem það er núna í lögunum sem hafa verið í gildi frá 1999. Þetta er afturför að mati Landverndar og þetta er afturför að mínu mati líka.

Það hefur líka að mati Landverndar verið dregið úr vægi varúðarreglunnar. Það er eitthvað sem við þurfum að fara vandlega yfir í umhverfis- og samgöngunefnd í umfjöllun um málið.

Það eru ákveðnir hlutir í þessu frumvarpi sem eru mjög jákvæðir. Í heildina er ég nokkuð bjartsýnn á að við náum að klára þetta mál áður en gildistímafrestun laga nr. 60/2013 rennur út, sem er um miðjan nóvember ef mér skjöplast ekki. Meðal þess sem er mjög jákvætt er að það er verið að taka upp kerfi alþjóðlegra náttúruverndarsamtaka um flokkun friðlýstra svæða. Það er verið að setja skýrari og alþjóðlegri ramma um umgengni við þau. Það má telja ýmislegt fleira til sem er mjög gott.

Það eru þarna atriði sem við eigum eftir að fara betur ofan í eins og almannarétturinn sem við höfum til þess að ferðast um landið okkar. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að fara í gegnum það ákvæði núna vegna þess að við horfum svolítið á breyttan veruleika í þessum efnum, mikinn straum ferðamanna, fjölda fyrirtækja sem selja ferðir út um hvippinn og hvappinn og á næstu missirum og árum mun reyna á þennan rétt. Það skiptir mjög miklu máli að við náum vel utan um þessa kafla og náum að afgreiða þá með þeim hætti að við séum öll eins sátt og nokkur kostur er í þessum efnum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið eins og það lítur út núna. Það eru nokkur atriði sem ég næ ekki að komast yfir á þeim tíma sem mér er skammtaður til þess að taka þátt í þessari umræðu.

Ég vil enda á þeim punkti sem ég byrjaði á: Það sem við eigum sameiginlegt í þessu máli er ástæðan fyrir því að við erum að fjalla um þessi lög og það er ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin, eins og sú síðasta, setur fram sérstök lög um vernd náttúrunnar. Við erum sammála um að það sé ástæða til þess því að það eru verðmæti í íslenskri náttúru sem við viljum sameiginlega passa upp á og vernda. Það er mjög góður grunnur. Þá þurfum við að gæta þess að sá grunnur sem við byggjum á verði raunverulega til þess.