145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:47]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Jú, við eigum að hafa góðar upplýsingar. Jú, við eigum að virða hvert annað. Og, jú, við eigum að vinna hér eins vel og við getum. Það er ekki gert í þessu máli heldur eru menn að reka einhverja pólitík sem leiðir eingöngu til átaka þriðja árið í röð. Það er enginn góðvilji þar að baki, ég get fullyrt það.

Það er heldur ekki málinu sjálfu til góða hvernig hv. þingmaður vinnur það vegna þess að mér heyrist hann vera að leggja upp í enn einn leiðangur sem mun leiða til þess að tafir verða á afgreiðslu út úr rammaáætlun. Hann gerði það hér á síðasta þingi. Hvammsvirkjun væri komin núna af stað ef hv. þingmaður hefði ekki þvælst fyrir henni í allan fyrravetur. Mér heyrist á máli hans hér að hann sé enn eina ferðina að leggja upp í leiðangur sem muni tefja allt ferlið, tefja það að rammaáætlun skili af sér. Menn þurfa aðeins (Forseti hringir.) að hugsa hvað þeir eru að gera og gæta sín í kappinu á því að slá sig til riddara.

(Forseti hringir.) Annað sem ég verð að nefna líka er að málið heyrir undir umhverfis- og samgöngunefnd, ekki atvinnuveganefnd.