145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

vinnubrögð í atvinnuveganefnd.

[10:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Það mun vera hægt vestra að segja til um lengd vetrar miðað við það hvenær eitthvert tiltekið múrmeldýr sýnir sig út úr holu sinni. Það er … (Gripið fram í.) — Leyfið mér nú að klára söguna, hæstv. ráðherrar, áður en þið fyllist hneykslun á ráðherrabekkjunum. Það er svipað og nú er uppi þegar hv. þm. Jón Gunnarsson sýnir sig í umfjöllun sinni um rammaáætlun, ýmislegt sem bendir til þess að þetta verði langur og harður vetur.

Lögbrotin sem vissulega hafa verið framin í tengslum við rammaáætlun felast í því að taka tiltekna virkjunarkosti út og óska eftir flýtimeðferð á þeim. Hverjir hafa gert það? Hæstv. ríkisstjórn. Hver hefur gert enn betur og fjölgað þeim kostum? Hv. þm. Jón Gunnarsson í umfjöllun sinni í atvinnuveganefnd. Er hann maðurinn sem er núna að rannsaka þessi brot? Er hann rétti aðilinn til þess? Það er fagnaðarefni ef menn hafa séð að sér (Forseti hringir.) og iðrast, en ég er ekki viss um að atvinnuveganefnd, þó að hún sé fær um að vasast í flestum hlutum í þinginu, sé rétta nefndin til þess.