145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

börn sem búa á tveimur heimilum.

[11:29]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Í þingsályktun sem liggur til grundvallar skýrslunni var einmitt fullyrt með rökstuðningi að mikill aðstöðumunur væri á milli lögheimilisforeldra og umgengnisforeldra, sem birtist á margan hátt í löggjöf, stofnanaumhverfi, í bótakerfinu og þar fram eftir götunum. Starfshópnum var m.a. falið að kanna þá fullyrðingu og gera það algerlega kerfisbundið. Það er mjög ánægjulegt sjá að starfshópurinn hefur tekið það hlutverk mjög alvarlega, hann fer nákvæmlega í saumana á málinu og tiltekur hver aðstöðumunurinn er og hvernig hann birtist. Fullyrðingin sem var í þingsályktunartillögunni er alveg rétt; aðstöðumunurinn er mjög mikill og hann er bagalegur. Hér þarf því að ráðast í breytingar á löggjöf og starfshópurinn gerir mjög skýrar tillögur um það. Ég held að það yrði mikið framfaraskref ef foreldrar, sem kjósa að ala upp börnin sín saman eftir skilnað, gætu valið það að börnin yrðu skráð í skipta búsetu þar sem aðstöðumunur heimilanna yrði algerlega jafnaður út.