145. löggjafarþing — 13. fundur,  24. sept. 2015.

bráðaaðgerðir til að tryggja öllum húsnæði á viðráðanlegum kjörum.

15. mál
[12:45]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málið og tel margt gott í því og margt brýnt sem við þurfum að takast á við. Við erum auðvitað búin að ræða þessi leigumál oft á þingi og kannski í samfélaginu yfirleitt. Ég tek undir landsbyggðarvinkilinn á þetta. Eins og hér kemur fram og málshefjandi rakti er þörf fyrir önnur úrræði. Ég var að koma af fjármálaráðstefnu sveitarfélaga þar sem húsnæðismálaráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga áttu samtal. Þar kom ekki neitt sérstaklega fram hvað varðar akkúrat landsbyggðina annað en að hún var spurð hvort það fælist í því að það yrðu meiri niðurgreiðslur eða hærri stofnstyrkir eða hvað það væri sem hún teldi hægt að gera fyrir landsbyggðina þar sem vandinn þar er allur annar eins og hér var rakið áðan. Hún hafði ekki svör við því, það á því miður eftir að útfæra þetta allt saman. Ég veit að vandinn er stærstur á stórhöfuðborgarsvæðinu en hann er líka mjög stór og mikill víða um landsbyggðina og því verður að taka á því þegar kemur að bráðavanda af því að bráðavandinn á þar við og eins og hér er sagt reyndar kannski sums staðar sem langtímavandi.

Byggingarreglugerðina bar líka á góma á þessum fundi í morgun. Húsnæðismálaráðherra boðaði breytingu þar á. Það yrði sem sagt gerð breyting þannig að hægt væri að byggja minni íbúðir sem ekki uppfylltu þá þessar kröfur um aðgengi fyrir alla. Ég held að þar verðum við að stíga varlega til jarðar. Sem betur fer er alltaf fjölgun á landinu, þjóðin eldist núna mjög hratt og dvelur lengur heima þannig að þörfin fyrir aðgengi er til staðar. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að við stöldrum við og látum ekki glepjast af skammtímahugsunum varðandi það að breyta þessari reglugerð.

Þegar málið var lagt fram 2013 gerðu Leigjendasamtökin athugasemdir sem harmónera svolítið við það sem við vinstri græn höfum talað fyrir, þ.e. „non-profit“-búsetuvalkosti sem við erum kannski að ræða að einhverju marki. Hann gefur fólki val um að vera leigjandi eða eigandi séreignar. Varðandi leigumarkaðinn gagnrýna þau tímarammann sem kemur fram í þessari tillögu, þ.e. að lágmarksleigutíminn yrði að vera 12 mánuðir. Þar er bent á að það geti verið óheppilegt sökum þess að leigusalar líti þá á það sem skammtímaleigu, að fólk sé mun óöruggara og það sé ekki til að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir, sérstaklega núna þegar við sjáum fleiri og fleiri íbúðir fara undir túristavæðinguna. Þá þurfa að vera ótímabundnir eða lengri samningar sem hafa sex mánaða uppsagnarfrest fyrstu fimm árin og gefa leigjendum meira svigrúm til að leita sér að stærra húsnæði. Ég held að það sé einmitt eitt af því sem væri allt í lagi að velta fyrir sér þegar þetta mál fer til nefndar.

Ég held að leigumarkaður hafi aldrei verið heilbrigður á Íslandi, ef ég horfi aftur út á landsbyggðina, en ef ríkisstjórnin kæmi fram með eitthvert úrræði sem mundi gagnast þar tel ég auknar líkur á að ungt fólk settist að þar sem það upplifir sig ekki bundið einhverjum átthagafjötrum. Það er tilfellið ef það kaupir eignir sem eru fljótar að verðfalla, ég tala nú ekki um ef húsnæðið er byggt. Eiginlega það eina sem komst að hjá ráðherranum á þessum fundi áðan var þetta með að lækka byggingarkostnaðinn. Það fólst fyrst og fremst í því að minnka aðgengið fyrir alla. Í rauninni er ekki tekið á öllum flutningskostnaðinum eða því að búa á köldu svæði en þetta þarf allt að spila saman ef vel á að vera. Það er að öllu leyti dýrara nema lóðarleiguverðið er lægra sem er kannski það eina sem stendur upp úr í þessu.

Mín skoðun er sú að við eigum að ýta undir bæði séreign og leigu en hafa val. Ég hef ekki verið sérstaklega mikill talsmaður þess að taka séreignarsparnaðinn með þeim hætti sem gert er. Ég hefði viljað að hann fengi að vera í friði en eitthvað annað tekið upp sem væri þá ekki val fyrir þá sem hefðu hærri tekjur heldur kannski ekki ósvipað form og skyldusparnaðurinn var. Kannski þarf að afmá einhverja agnúa úr kerfinu eins og það var á þeim tíma. Ég hef viljað hafa það miklu fremur sem part af launagreiðslum lífeyrissjóða, félagsgjald frekar en að þeir sem hafa hærri tekjur geti lagt fyrir í séreignarsparnað. Það hjálpar ekki nema hluta þeirra með það vandamál að geta ekki keypt sér.

Hér var komið inn á skerðingarmörkin vegna vaxtabótanna. Þessi blessaða ríkisstjórn sem eyddi öllum þessum peningum í skuldaleiðréttinguna og hefur ekki gert tilraunir til að takast á við verðtrygginguna eða vextina sem við þurfum að greiða hefur mikið talað um að við vinstra fólk vildum bótavæða samfélagið og að þetta sé bara vegna þess að eignastaðan hafi batnað. Það er vissulega rétt að vaxtabætur til heimila lækka vegna þess að fasteignamatið hækkar, eignastaðan batnar hjá mjög mörgum en greiðslustaðan ekki að sama skapi. Það er ekkert auðveldara að greiða af lánunum og sérstaklega ekki þegar bæturnar lækka og heimilið þarf að greiða meira með laununum sínum að öllu óbreyttu.

Síðan þarf maður auðvitað að spyrja sig hvert markmið bótanna sé og hvort ríkisstjórnin telji eðlilegt að hækkun eignaverðs sem stafar eingöngu af hærra fasteignamati lækki vaxtabætur til heimila. Mér finnst það ekki eðlilegt þannig að ég held að þarna sé verið að spila svolítinn blekkingaleik.

Ég er í sjálfu sér að mestu leyti sammála innihaldinu í þessum tillögum en tel þó eins og ég hef rakið hér að það þyrfti að taka tillit til ákveðinna þátta. Ég hef áhyggjur af þeirri breytingu sem fyrirhuguð er á byggingarreglugerð. Ég veit ekki hvernig ráðherrann hyggst leggja það fram að öðru leyti en því sem hún sagði að hún mundi gera það.

Ég þarf ekki að tala mikið meira í þessu máli. Mér þykir gott að það er komið fram og ég vona að umsagnirnar verði góðar. Við erum öll sammála um að þetta sé vandi sem þarf að leysa. Ég man að ráðherrann sagði, svo ég vitni í lokin bara beint í hana, í umræðu um þessi mál þar sem hún þakkaði þingflokki Samfylkingarinnar fyrir þessa fram komnu tillögu, með leyfi forseta:

„Flest það sem þar er að finna er eins og út úr mínum eigin huga talað og styður þær áherslur sem ég hef talað fyrir að undanförnu og er þegar farin að skoða eða jafnvel hrinda í framkvæmd.“

Þá ætti að vera auðsótt mál (Forseti hringir.) að fá að minnsta kosti eitthvað af þessu hér í gegn.