145. löggjafarþing — 15. fundur,  5. okt. 2015.

tekjuskattur o.fl.

172. mál
[18:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að heyra hæstv. fjármálaráðherra forðast stóru spurninguna sem er munurinn á milli 682 milljarða og þessara 300. Hann segir að þessar aðgerðir muni duga til að hlutleysa búin — já, en vill hann þá ekki rökstyðja fyrir okkur hvernig? Þar stendur hnífurinn í kúnni. Er ekki nauðsynlegt að þær upplýsingar komi fram? Það stendur nefnilega ekki steinn yfir steini þegar kemur að yfirlýsingum, og nú verð ég að undanskilja hæstv. fjármálaráðherra þeirri einkunn, sérstaklega yfirlýsingum Framsóknarflokksins og hæstv. forsætisráðherra um þessi mál undanfarin ár. Allar yfirlýsingarnar um að hann ætlaði að ganga fram gegn kröfuhöfum þannig að þeir biðu tjón af hafa að engu orðið þegar við blasir að kröfuhafar munu að óbreyttu koma betur út úr skiptum en þeir reiknuðu jafnvel sjálfir með í frjálsum viðskiptum upp á síðkastið. Maðurinn sem sagði að þessir menn hefðu hagnast svo mikið á því að kaupa kröfur á afslætti er núna að gefa þeim peninga, meiri heimtur en þeir reiknuðu sjálfir með.

Virðulegi forseti. Það er ósköp einfaldlega þannig, til að rifja upp hvað sagt var fyrir síðustu kosningar, að í sjónvarpsþætti þar sem ég sat með hæstv. fjármálaráðherra nokkrum dögum fyrir kosningar lýsti ég í smáatriðum þessu svigrúmi, hvernig við hygðumst ná því með samningum, og það er einfaldlega ósatt að hann hafi komið að auðu borði í fjármálaráðuneytinu hvað það varðar. Mér finnst ekki stórmannlegt af honum að reyna með þeim hætti að láta eins og hann hafi verið í miklu rannsóknarverkefni undanfarin ár þegar við blasir að það eina sem hann hefur verið að gera er að koma vitinu fyrir hæstv. forsætisráðherra í málinu og koma honum niður á jörðina og klippa hann niður úr óraunhæfum yfirlýsingum sem hann gaf. En eftir stendur auðvitað sú staðreynd (Forseti hringir.) að hæstv. forsætisráðherra og þessi ríkisstjórn skuldar skýringar á því af hverju ekki er verið að innheimta þennan stöðugleikaskatt til fulls.