145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

viðurlög við ölvunar- og vímuefnaakstri.

[14:36]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu. Hún er mjög áhugaverð, miklu áhugaverðari en ég hélt að hún mundi verða þannig að ég er mjög ánægð með að hafa setið hérna og hlustað á hana. Ég er enginn sérfræðingur í þessum málum en mér finnst sjálfsagt, eins og hefur komið fram, að við horfum til þess sem hefur verið gert í öðrum löndum og þess sem hefur reynst vel. Mér finnst erfitt að segja til um hvort varnaráhrif eru af þeirri aðgerð að þyngja refsingar. Ég held að það sé eitthvað sem ráðherra verður að meta. Ég mundi frekar halda að það væri fræðsla og eftirlit, ég held að máli skipti að lögreglan sinni eftirliti. Ég man eftir því að hafa verið stoppuð einhvern tíma þegar Íslendingar féllu alveg fyrir jólaglöggshátíðunum. Þá var eitt slíkt jólaglöggskvöld í nóvember og allir stoppaðir sem voru á Miklubrautinni og maður þurfti að fara í gegnum síu. Ég veit ekki hvort það er endilega rétta leiðin en það þarf að vera vakandi fyrir því þar sem geta verið einhver vandamál.

Ég verð að segja að ég er alveg spennt fyrir hugmyndinni með áfengislása. Ég segi það fyrir mig að ég mundi ekki kunna að tengja fram hjá, ég vissi ekki einu sinni að það væri hægt. En þegar menn eru ítrekað staðnir að verki og eru beinlínis sjálfum sér og öðrum mjög hættulegir finnst mér sjálfsagt mál að settar séu einhverjar kvaðir á þá, ef þeir eiga bíl sé hann gerður upptækur, ef þeir hafa ekki stjórn á þessu sé settur áfengislás. Það finnst mér ekki vera eitthvað sem við eigum að bíða eftir. Það fyndist mér vera aðgerð sem við gætum vonandi farið í sem fyrst. Annars þakka ég fyrir áhugaverða umræðu.