145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir varðandi Grikkland. Þessu dæmi er ítrekað haldið fram í umræðunni af þeim sem vilja gjalda varhuga við evrusamstarfinu og það er sagt eða látið að því liggja að miklar hörmungar hafi falist í því fyrir Grikkland að vera í evrusamstarfinu þegar þetta dundi á Grikklandi. Þetta er jafnvel sagt í sömu andrá og því er haldið fram að gjaldmiðill skipti ekki máli. Þetta er reyndar dálítið þversagnakennt í umræðunni.

En hljótum við ekki, hv. þm. Ögmundur Jónasson, ef við ætlum að tala um Grikkland og bera saman við Ísland að þurfa að taka til skoðunar hvernig lífeyriskerfið er í Grikklandi, hvernig skattumhverfið er í Grikklandi, hvernig vinnumarkaður er í Grikklandi, hvernig spilling hefur verið í Grikklandi, hvernig stjórnarfar hefur verið þar og bera þetta allt saman og spyrja síðan: Viljum við flytja allt þetta inn eða ekki eða hvað? (Forseti hringir.) Verður samanburðurinn ekki að vera sanngjarn? Við mundum höndla evruna á öðruvísi hátt en Grikkir út af allt öðruvísi kringumstæðum, ekki satt?