145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:06]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru að sjálfsögðu til margvíslegar aðgerðir til að stuðla að háu atvinnustigi. Þegar gjaldmiðli er beitt sem tóli til að skerða kaupmátt heillar þjóðar eins og gerðist hér, þá er alveg rétt að hægt er að hafa áhrif á stöðu einstakra hópa og þar skiptir sköpum hverjir fara með landsstjórnina. Á síðasta kjörtímabili reyndum við sem stóðum þá vakt, fyrrverandi meiri hluti, að verja þá hópa helst sem stóðu höllustum fæti. Það er hlutverk stjórnvalda að verja slíka hópa þegar kaupmátturinn almennt hrapar.

Ég er einvörðungu að benda á það að eitt alvarlegasta mein sem upp getur komið í einu samfélagi er þegar stórir hópar fólks missa atvinnu sína og lífsviðurværi sitt. Þá hefst atburðarás sem seint verður séð fyrir endann á.