145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er full ástæða til að fagna því mikilvæga átaki sem hv. þm. Karl Garðarsson rakti hér og ánægjulegt að þetta skref sé stigið nú í dag.

Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér hér hljóðs vegna þess þingmáls sem komið er frá þingflokkum stjórnarflokkanna og lýtur að stöðugleikaskatti á erlenda kröfuhafa eða öllu heldur viðleitni til þess að aðstoða þá við að komast hjá því að greiða stöðugleikaskatt. Í upphafi vikunnar var mælt fyrir frumvarpi af hálfu hæstv. fjármálaráðherra sem lýtur að því að draga úr þeim kröfum sem gerðar eru í skiptarétti okkar enn frekar en orðið er, að því er virðist til þess að liðka fyrir því af hálfu stjórnvalda að slitabú föllnu bankanna geti komist hjá því að greiða þann stöðugleikaskatt sem lögfestur hefur verið og geti því komist með mun ódýrari hætti frá málum svo munar mörg hundruð milljörðum. Hæstv. fjármálaráðherra skýrði hvað lægi að baki frumvarpinu af hans hálfu en ég sakna þess að þingflokkur Framsóknarflokksins og forustumenn Framsóknarflokksins geri grein fyrir því hvers vegna þeir hafa samþykkt framlagningu þessa máls og hvers vegna ríkisstjórnin hefur kosið að beita sér sérstaklega fyrir því að liðka með þessum lagabreytingum sérstaklega fyrir því að slitabúin geti komist hjá stöðugleikaskattinum. Ég hafði skilið þingmenn Framsóknarflokksins þannig að þeir legðu áherslu á að stöðugleika þyrfti að tryggja hér með álagningu stöðugleikaskatts og að full ástæða væri til þess að hlusta á varnaðarorð Indefence um hugmyndir (Forseti hringir.) sem uppi hafa verið um stöðugleikaskilyrði sem yrðu sannarlega ekki tryggð til nægilega langs tíma eða með nægilega vönduðum hætti eftir þeim (Forseti hringir.) upplýsingum sem fram væru komnar.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna