145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 122/2015 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

186. mál
[15:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 122/2015, um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn um umhverfismál, og fella inn í samninginn tilskipun framkvæmdastjórnarinnar um endurheimt bensíngufu við eldsneytistöku fyrir vélknúin ökutæki á bensínstöðvum sem nánar er tilgreint í tillögunni sjálfri.

Tilskipunin fjallar um nýjar staðlaðar kröfur um gufugleypibúnað á eldsneytisstöðvum sem eiga að koma í veg fyrir að aukin losun á rokgjörnum lífrænum efnum frá íblönduðu eldsneyti skaði heilsu fólks. Kröfur um lágmarksafköst gufugleypibúnaðar og kröfur um prófunaraðferð fyrir búnaðinn eru settar fram í stöðlum. Gerðin breytir eldri gerð um sama efni á þann hátt að vísað er í framangreinda staðla.

Innleiðing eldri gerðar um sama efni kallaði á breytingu á efnalögum, nr. 61/2013, og var sú breyting gerð með lögum nr. 63/2015 sem mynduðu einnig lagastoð fyrir innleiðingu tilskipunarinnar sem hér um ræðir.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallaði á lagabreytingu hér á landi var hún tekin upp í EES-samninginn og var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram þar sem lög nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, kveða á um að stjórnskipulegum fyrirvara beri að aflétta með þingsályktun. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.