145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

stöðugleikaframlög.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta fyrirspurn. Það er rétt, sem hv. þingmaður nefnir, að í fréttum hafa verið ýmsar sögur á kreiki eða túlkanir, ágiskanir jafnvel, um það hvað felist í hinu svokallaða stöðugleikaframlagi. Menn hafa jafnvel fjallað um það á þann hátt að það snerist eingöngu um einhverja tiltekna 334 milljarða sem menn höfðu reiknað sig upp í.

Það er því mjög gott að fá tækifæri til að minna á að þetta framlag — verði það niðurstaðan, uppfylli slitabúin öll skilyrði — felst vissulega í peningagreiðslum, beinum greiðslum á peningum, sem geta numið þeirri upphæð sem nefnd hefur verið eða einhverju þar um kring, hugsanlega meira, hugsanlega minna. En það er aðeins hluti af framlaginu. Við bætast fjölmargir þættir, afhending ýmissa eigna, framsal krafna, innlán, skuldabréf, skilyrt skuldabréf og til að mynda hlutdeild ríkisins í söluandvirði bankanna.

Það er því mjög villandi, og raunar rangt, að tala um stöðugleikaframlagið eins og það sé eingöngu þessi tiltekna peningaupphæð. Ég veit að hv. þingmaður var ekki að tala um það þannig, en það er rétt, sem hv. þingmaður nefndi, að þannig hefur verið fjallað um það að undanförnu.

Ég tel fullt tilefni til að halda fund í samráðsnefnd þingmanna, eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir leggur til, og vonast til þess að sá fundur geti farið fram sem fyrst. Ég stýri reyndar ekki þeim fundum, en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að halda fund í þeirri nefnd.