145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

fjárframlög til rannsókna í ferðaþjónustu.

[10:45]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins að ræða um ferðaþjónustuna í ljósi þess að ráðherra var að kynna nýtt plan og ekkert nema gott um það að segja, við fylgjumst með því hvernig því vindur fram. Það sem mig langar sérstaklega að ræða eru rannsóknir í ferðamálum. Ég sendi ráðherra skriflega fyrirspurn snemma á þessu ári minnir mig þar sem ég kallaði eftir því hversu miklum peningum væri varið í rannsóknir í þágu ferðaþjónustunnar, sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar. Ég veit að ég var að setja ráðuneytið í töluverða vinnu en mér fannst á sama tíma mjög mikilvægt að ráðuneytið byggi yfir þessum upplýsingum.

Ég verð að segja að mér finnst svarið mjög áhugavert. Það kemur í ljós að verið er að setja afskaplega litla fjármuni í rannsóknir á ferðaþjónustu, þessari mikilvægu atvinnugrein. Ég fæ í raun bara svör um atvinnuvegaráðuneytið, en ég veit að menntamálaráðuneytið setur að einhverju leyti peninga í rannsóknir í gegnum Háskólann á Akureyri sem fara til Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Þetta finnst mér vera áhyggjuefni, hve lítið fjármagn er veitt til rannsókna. Í svarinu kemur fram að árið 2013 eru það 168 milljónir. Í fjárlögum í ár, 2015, voru settar aukalega 60 milljónir sem skiptust á milli Bifrastar að mig minnir og RMF, en framlagið fellur niður í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016. Í ljósi þess hversu mikilvæg þessi atvinnugrein er og það kemur líka fram í þeirri vinnu sem fór fram, í þessum vegvísi um ferðamál, að rannsóknir séu mjög mikilvægar — það segir beinlínis hérna: Áreiðanleg gögn eru ómissandi og það er ágætiskafli einmitt um mikilvægi rannsókna í ferðaþjónustunni — þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaðan eiga þá peningarnir að koma? Hvað erum við að fara að gera til dæmis strax á næsta ári? Þetta er ekki eitthvað sem við ætlum að byrja á eftir fimm ár, við ættum þegar að vera byrjuð. Og af því að ég er með þessar tölur hérna þá eru til dæmis framlög til rannsókna í sjávarútvegi um 3 milljarðar, en það fóru sem sagt 168 milljónir til rannsókna í ferðaþjónustunni á árinu 2013.