145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil ræða menningarmál á landsbyggðinni. Mér þykir það mjög brýnt umræðuefni. Ég sé í rauninni enga stefnu varðandi það hvernig við viljum sem þjóð hlúa að og styðja menningu og listir á landsbyggðinni. Ég sé ekki jafnræði í fjárveitingum og mér hefur ekki fundist vera skilningur hjá ráðamönnum á mikilvægi þess að öflugt menningarlíf blómstri úti á landi. Í rauninni upplifi ég að þetta umhverfi byggist á geðþóttaákvörðunum og tilviljunum frekar en einhverri sýn eða stefnu.

Nú er ómögulegt að ræða þessi mál án þess að henda fram tölum og gera samanburð því að við erum auðvitað ræða með hvaða hætti við deilum út peningum og hvernig við tryggjum jafnræði. Bara til að það sé sagt hér þá veit ég að það er varla til sú menningarstofnun sem er ofalin af því fjármagni sem hún fær. Ég er ekki að tala fyrir því að skorið verði niður hjá einhverjum öðrum. Ég tel þvert á móti að við þurfum að gefa í í þessum málaflokki. Ég vildi í rauninni óska að ég þyrfti ekki að taka þessa umræðu, að ég þyrfti ekki að stilla þessu upp sem höfuðborg/landsbyggð, en það er því miður óhjákvæmilegt.

Mig langar að byrja á að ræða aðeins menningarsamning sem hefur verið í gildi milli menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar. Hann gengur út á að ríkið styrki rekstur á Leikfélagi Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Listasafni Akureyrar. Þessi samningur hljóðar upp á 138 millj. kr. og lækkaði einhliða um 2 milljónir í fjárlögum ársins 2014 sem var niðurskurðarfrumvarp eins og fólk man kannski. Árið 2009 var framlagið skorið niður einhliða um 10 millj. kr. Þessi framlög til rekstrar atvinnustofnana á sviði lista og menningar utan höfuðborgarsvæðis hafa ekki verið verðbætt eins og gengur og gerist með sambærilegar menningarstofnanir á höfuðborgarsvæðinu, en verðbólgan er ekki bundin við suðvesturhornið, svo því sé haldið til haga.

Aðkoma ríkisins að menningarmálum í höfuðstað Norðurlands er mjög lítil. Ef við horfum á heildarpakkann þá setur Akureyri hátt í 900 milljónir í menningarstarfsemi en ríkið greiðir sem sagt 138 milljónir. Í sumum sveitarfélögum er þessi munur örugglega mun meiri.

Mig langar aðeins að ræða líka um skáldasöfn, höfundarsöfn. Það á örugglega við um söfn almennt en sum söfn eru á fjárlögum, sum fá fjármagn í gegnum samninga við ráðuneytið og sum eru nær alfarið rekin af sveitarfélögum. Nokkur höfundarsöfn fá sæmileg framlög. Gljúfrasteinn fær rúmar 42 milljónir — annað væri það nú ef við mundum ekki styðja við safn um nóbelsskáldið okkar. Eins fá Snorrastofa og Skriðuklaustur framlög á fjárlögum í kringum 35 milljónir. Skáldahúsin á Akureyri, Nonnahús, Sigurhæðir og Davíðshús, fá engin framlög frá ríkinu og hafa ekki gert frá árinu 2012. Frá árinu 2009 til 2012 fékk hvert safn 830 þúsund. Ég er ekki einu sinni byrjuð að tala um Hraun í Öxnadal, fæðingarstað Jónasar Hallgrímssonar, sem fær ekkert framlag frá ríkinu og í rauninni getur sveitarfélagið Hörgárbyggð varla staðið að rekstri og uppbyggingu óstutt. Minjasafnið og Akureyrarbær reka skáldahúsin á Akureyri. Reksturinn er þungur. Auðvitað er erfitt fyrir söfn að standa undir nafni ef það er ekki einu sinni til fjármagn til að ráða safnverði.

Svörin frá ráðuneytinu hafa verið þau að skáldahúsin eigi að sækja í menningarsamninga sem nú hafa runnið inn í uppbyggingarsjóðina. En framlögin í menningarsjóðina sem svo hétu hafa ekki bara staðið í stað heldur beinlínis lækkað síðan 2009, alla vega í tilfelli Eyþings. Það er ekki ásættanlegt að þeim stofnunum og söfnum sem ekki hafa rambað inn á fjárlög á einhverjum tímapunkti sé vísað í þessa takmörkuðu sjóði. Ég held að menningarhluti Eyþings sé um 35 milljónir á ári og þá erum við að tala um svæði sem nær frá Fjallabyggð að Langanesbyggð. Það eru mjög margir, eins og gefur að skilja, að bítast um þessar fáu krónur.

Ég þarf kannski ekki að fjölyrða um það hér en í þessum höfundarsöfnum eru fólgin mjög mikil menningarverðmæti. Ríkið á bara að sjá sóma sinn í að tryggja rekstur þeirra og búa þannig um að þjóðin geti verið stolt af þeim því að þetta er menningararfur sem öll þjóðin á.

Ég treysti því í þessari umræðu að aðrir þingmenn muni fjalla um Austurland sérstaklega og vonandi aðra landshluta. Ég veit að Austurland ber verulega skarðan hlut frá borði þegar styrkir ríkisins til menningarmála eru annars vegar og stendur jafnvel hvað verst.

Svo langar mig auðvitað að heyra frá mennta- og menningarmálaráðherra, hvort hann sé ekki sammála því að þessi mynd sé skökk, að rangt sé gefið. Mér finnst skammarlegt að haga málum þannig að landsbyggðin sitji eftir þegar framlög til menningar og lista eru annars vegar. Þetta er kannski ekki þessum tiltekna hæstv. menntamálaráðherra að kenna, þetta hefur verið svona í gegnum tíðina, en hvað hyggst hann gera í málinu?