145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:41]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að það er einmitt málið, við teljum að neysla á hvern Íslending muni ekki aukast með frumvarpinu, við teljum að það muni ekki hafa þessi áhrif. Þess vegna vil ég skora á hv. þingmann í ræðu sinni hér á eftir sem ég vænti að hann muni flytja, að hann heimfæri þessar rannsóknir á þær breytur sem eru hér, á veruleikann hér á Íslandi, hvernig sýna má fram á að niðurstöður þessara rannsókna eigi við hér á landi og hvernig hann útskýri þá samdrátt á áfengisneyslu á hvern íbúa í Suður-Evrópu þar sem hefur verið mikið frjálsræði alla tíð.

Ég segi að sala á áfengi muni klárlega aukast út af fjölgun ferðamanna og auknu aðgengi ferðamanna að áfenginu. Varðandi Íslendingana þá mun þetta að ég held hafa jákvæð áhrif þar sem við erum að treysta þeim og færa þetta í eðlilegt horf. Þetta snýst um menningu hverrar þjóðar, hvernig menningin er. Það er eitt af markmiðum Vínbúðanna að auka vínmenningu, t.d. vín með mat.