145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég stóð í þeirri meiningu að það stæði í greinargerð frumvarpsins að búast mætti við einhverri aukningu í áfengisneyslu. En látum það liggja á milli hluta að sinni.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að við þurfum að fá um þetta málefnalega umræðu. Ég verð að segja það í upphafi þessarar umræðu að þetta frumvarp stríðir gegn nánast öllum samfélagslegum hagsmunum sem hugsast geta að mínum dómi. Þetta stríðir gegn lýðheilsusjónarmiðum. Gagnvart neytandanum þá er líklegt að þetta muni draga úr úrvali og verðið mun hækka. Fyrir ríkissjóð er þetta missir fjármuna en auðvitað eru þetta hagsmunir þeirra sem standa að Sjálfstæðisflokknum og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er að reka þetta mál. Þingmaðurinn sagði að þetta væri fyrst og fremst þingmannamál en formaður flokksins og fjármálaráðherra sagði annað í stefnuræðu í haust.

En tími minn er þrotinn. Það sem ég vildi spyrja hv. þingmann: Er það rétt skilið hjá mér að hann lesi það út úr samþykktum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að hún styðji þau sjónarmið sem eru boðuð í þessu frumvarpi? Er það rétt skilið hjá mér? Og landlæknisembættið mætti fylgja með.