145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

Verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[12:50]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka skýrt svar og hlakka til að vinna að málinu í nefnd. Mig langar að spyrja hv. þingmann um hlut í þessu frumvarpi sem var ekki í frumvarpinu síðast, en hann virðist hafa valdið ákveðnum misskilningi í umræðunni. Þetta varðar 24. gr. frumvarpsins þar sem segir að 26. gr. laganna skuli orðast svo og svo. Fram kemur að það varði sektum eða fangelsi allt að sex árum ef einstaklingur stundar í atvinnuskyni innflutning, heildsölu, smásölu eða framleiðslu áfengis án leyfis o.s.frv. og líka þótt ekki sé í atvinnuskyni, samkvæmt b-lið. Þetta hefur verið gagnrýnt mjög. Margir halda að þetta atriði sé að koma inn með frumvarpinu núna en það er nú þegar í áfengislögum, ég man ekki greinina í augnablikinu.

Þetta finnst mér persónulega mikilvægara mál, þ.e. að fólk geti bruggað heima hjá sér til einkaneyslu án ótta við hegningarlög og refsingar, fangelsi allt að sex árum í þokkabót. Nú vitum við að margir gera þetta. Ég hef ekki nægan tíma til að klára alla spurninguna en er hv. þingmaður reiðubúinn til þess að endurskoða þetta ákvæði?