145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:29]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allar rannsóknir sýna fram á að neysla og dreifingarmáti haldast í hendur. Rannsóknir sýna að áfengisneysla eykst ef dreifingaraðferðin er ágeng og áfengið er komið í verslanirnar, eins og hér hefur verið bent á, ef hillumetrunum þar sem menn hafa vín fyrir augunum fjölgar. Þetta liggur allt í augum uppi. Ég fæ ekki alveg skilið hvernig afnám ÁTVR mun auka hagnað ÁTVR, ég skil það ekki alveg. Kannski verður hægt að mennta mig eitthvað, ef þessi umræða dregst á langinn, hvar annars staðar eigi að taka peninga. Við skulum byrja á að taka peninga þarna, þar sem þeir skila sér í skatthirslurnar, og nota þá peninga að einhverju leyti til vímuefnavarna og síðan til heilbrigðiskerfisins sem er að kljást við afleiðingar áfengisneyslunnar.