145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[14:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst að við séum frjáls til að komast að niðurstöðu sem er skynsamleg fyrir okkar samfélag og við séum svo óháð kreddum og óhrædd við kreddur að við gerum það. Í mínum huga hljóta lýðheilsusjónarmið, að fólk sé heilbrigt, því líði vel, fjölskyldurnar búi ekki við böl eins og áfengisböl, börnin og allir sem að málum koma, að vera forgangsatriði fyrir okkur sem sitjum á Alþingi og setjum samfélaginu lög og reglur. Auðvitað reynum við að hafa þær þannig að afleiðingin sé heilbrigt og gott umhverfi sem stuðlar að góðri heilsu og vellíðan í samfélaginu og við reynum að takmarka slæm áhrif af notkun áfengis, tóbaks og svo framvegis. Ég mundi ekki tala svona léttvægt um sjúkdóma sem eru af völdum þessa. Menn eru nú ekkert hlæjandi inni á (Forseti hringir.) sjúkrahúsunum sem eru illa haldnir af skorpulifur, það held ég ekki.