145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

13. mál
[19:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er ekkert undarlegt að þessi umræða, sem hefur verið á mjög málefnalegum og yfirveguðum nótum hér í dag þar sem rök hafa verið reidd fram, horft til rannsókna og skýrslna erlendis frá og einnig héðan frá Íslandi, sé tilfinningaþrungin í bland og á að vera það. Einstaklingar og fjölskyldur sem hafa lent illa í Bakkusi bera ríkar tilfinningar í þessu máli og hafa fullan rétt á þessum tilfinningum.

Varðandi viðskiptafrelsið þá er það ekki fólgið í öðru en að það verða þrír aðilar sem annast þessa sölu í staðinn fyrir einn. Það er nú allt frelsið sem verður, held ég. Ef við horfum á þróun í kerfinu almennt þá er það þessi heimur sem við erum að fara inn í. Að lokum eitt, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) og ég skal segja það í einni eða tveimur setningum, (Forseti hringir.) að þótt Sjálfstæðisflokkurinn sé með þessar yfirlýsingar þá hef ég orðið var við það að (Forseti hringir.) fjöldi fólks sem styður þann flokk er mjög andvígur þessu frumvarpi.