145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

beiðni um sérstaka umræðu.

[13:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er einfalt mál að afnema verðtryggingu, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrir kosningar en eftir kosningar finnst honum það hið flóknasta mál svo mikið sem að ræða spurninguna. Það er eðlilegt að forsætisráðherra sé á harðahlaupum, sé á flótta undan því, nú þegar allt útlit er fyrir að verðbólga sé að aukast, þegar spurt er: Hvers vegna ákvað Framsóknarflokkurinn að svíkja stærsta kosningaloforð sitt, afnám verðtryggingar? Hvers vegna hefur ekkert gerst í því?

Forseti Alþingis hefur farið fram á það við Sigmund Davíð Gunnlaugsson að hann komi til þeirrar umræðu. Hann er staddur hér í húsinu. Ekkert er því að vanbúnaði að setja málið á dagskrá að loknum óundirbúnum fyrirspurnum nema andstaða forsætisráðherra sjálfs. Þetta getur þingið og forseti þingsins ekki látið bjóða sér. Það gengur ekki að ráðherrar geti, og þá hér eftir um alla framtíð, valið um það hvort þeir vilji ræða einhver efni eða ekki. Það er skýlaus réttur þingmanna að krefja ráðherra svara um mikilsverð málefni sem snerta fólkið í landinu. (Forseti hringir.) Verðtryggingin er sannarlega slíkt efni og það er skylda forsætisráðherra að vera hér í salnum.

Virðulegi forseti. Ég spyr: Hafa verið gerðar ráðstafanir til að forsætisráðherra sé hér í salnum eða er hann að éta köku enn eina ferðina? (Gripið fram í: Ósköp ertu alltaf málefnalegur, Helgi.) Hvar er hæstv. forsætisráðherra? (Gripið fram í: Tala minna, gera meira.) Hafa verið gerðar ráðstafanir til að forsætisráðherra geti verið hér við umræðuna? (Forseti hringir.) Ég held að það segi allt um málstað forsætisráðherra að hann þorir ekki að vera í salnum.