145. löggjafarþing — 19. fundur,  13. okt. 2015.

kaup á nýjum ráðherrabíl.

[13:49]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Ég spurði hæstv. forsætisráðherra út í vistvænar bifreiðar og innkaup ríkisins á þeim, þá sérstaklega ráðherrabílum, einhvern tímann í vor, og áttum við ágætisumræður um það. Hæstv. forsætisráðherra taldi æskilegt að ríkið leitaðist við að sýna gott fordæmi í þessum málum.

Það hafði eitthvað verið í blöðunum að forsætisráðherra væri að hugsa um að kaupa nýjan bíl. Ég hvatti hann eindregið til að nýta tækifærið og kaupa þá rafbíl eða eins umhverfisvænan bíl og hægt væri vegna þess að það skiptir máli að ráðherrar gangi alltaf á undan með góðu fordæmi. Hæstv. forsætisráðherra hefur nú talað um loftslagsmál og metnaðarfull áform í þeim efnum að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Nú sé ég fréttir um að nýr ráðherrabíll hafi verið keyptur. Þar sem ég veit ekkert meira en það sem ég hef lesið í blöðunum, ég get ekki farið inn á heimasíðu ráðuneyta og séð hvers konar ráðherrabílar eru fyrir ráðherrana — ég held að það væri reyndar mjög gott að hafa mynd af bílnum og upplýsingar um hann. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé rétt að keyptur hafi verið nýr bíll. Hvað heitir hann og hvað kostaði hann, hve miklu eyðir hann og hve mikið losar hann af CO2?