145. löggjafarþing — 20. fundur,  14. okt. 2015.

þjóðfáni Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið.

156. mál
[15:59]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að rýmka beri reglur um notkun íslenska fánans við markaðssetningu á vöru og þjónustu. Hvað það varðar þá fagna ég þessu frumvarpi. Þessar reglur hafa verið þrengri hérlendis en víða annars staðar þar sem fyrirtæki og félög hafa getað nýtt sér gott orðspor landsins til markaðssetningar. Oft er merking með fána viðkomandi lands ákveðinn gæðastimpill sem tryggir sölu á viðkomandi vöru eða þjónustu. Ljóst er að aukin notkun íslenska fánans í þessu skyni mun styrkja íslenska framleiðslu og þar með atvinnulífið í heild sinni. Þetta er gott og blessað. Við höfum í raun verið kaþólskari en páfinn þegar kemur að notkun íslenska fánans, bæði hvað varðar fánatíma og almenna notkun. Íhaldssemi okkar hefur haldið aftur af nauðsynlegum breytingum þannig að ég efast ekki um að fjölmargir fagna þeim breytingum sem hér eru lagðar til.

Þetta frumvarp er þó engan veginn hafið yfir gagnrýni og má gera athugasemdir við ýmis ákvæði þess. Það er líka ýmislegt í því sem er háð óljósu mati sem er ekki gott. Fyrst og fremst þarf að skoða vandlega 4. mgr. 12. gr. Þar segir að heimilt sé að nota hinn íslenska þjóðfána í merki eða á söluvarning, umbúðir um eða auglýsingu á vöru eða þjónustu sé sú vara eða starfsemi sem í hlut á íslensk að uppruna og fánanum ekki óvirðing gerð. Þessi grein er nokkuð skýr og getum við flest verið sammála um hana þó að matskennt sé hverju sinni hvenær fánanum er sýnd óvirðing. Hvenær er óvirðingin orðin svo mikil að ekki megi nota fánann á vöru eða þjónustu og hvað flokkast undir óvirðingu við fánann? Í frumvarpinu er engin skilgreining á því. Ég geri hins vegar ekki athugasemdir við að heimila notkun á fánanum á vöru sem er íslensk að uppruna.

Næsta málsgrein frumvarpsins vekur athygli og hana ber að skoða nánar. Þar segir að vara sé íslensk að uppruna og þar með megi nota fánann ef hún er framleidd hér á landi úr innlendu hráefni að uppistöðu til. Í athugasemdum við frumvarpið er ítrekað að hér þurfi varan að uppfylla þessi tvö skilyrði, annars vegar að vera framleidd hér á landi og hins vegar að vera búin til úr íslensku hráefni að uppistöðu til. Væntanlega þarf meiri hluti hráefnisins að vera íslenskur. Sérstaklega er tilgreint að hér sé átt við íslenskar landbúnaðarafurðir, íslenskar sjávarafurðir, íslenskt grænmeti og jurtir, auk t.d. vatns. Hér geta komið upp álitamál og spurningar vaknað um uppruna hráefnis. Hvenær er það að uppistöðu íslenskt? Svar er ekki í frumvarpinu.

Frumvarpið girðir ekki alfarið fyrir að vara teljist íslensk þó að hún sé framleidd hérlendis úr erlendu hráefni að stórum hluta. Þar er þó sett fram 30 ára reglan, þ.e. að varan geti aðeins talist íslensk ef hún hefur verið framleidd hérlendis í 30 ár undir sama vörumerki. Sama á síðan að gilda um matvöru sem er framleidd hérlendis samkvæmt íslenskri hefð og er þar t.d. átt við kleinur og laufabrauð.

Í stuttu máli er því almenna reglan þessi: Það má nota íslenska fánann á vöru sem framleidd er hérlendis ef hún er framleidd að uppistöðu úr íslensku hráefni. Ef hún er framleidd að verulegu leyti úr innfluttu hráefni þurfa framleiðendur að bíða í 30 ár eftir að fá að stimpla vöruna með íslenska fánanum.

Nú eru fjölmargar vörur, sem flest okkar mundu telja íslenskar, búnar til úr erlendu hráefni. Það verður að teljast nokkuð blóðugt ef framleiðendur slíkrar vöru þurfa að bíða í heil 30 ár áður en þeir mega nota íslenska fánann í markaðsskyni. Hvers eiga þeir að gjalda?

Í frumvarpi um sama mál sem vísað var til ríkisstjórnarinnar var upphaflega gert ráð fyrir 50 ára reglu, hálfri öld. Ef hráefni var erlent þurftu framleiðendur að bíða í hálfa öld áður en varan teldist íslensk. Blessunarlega er búið að lækka þröskuldinn niður í 30 ár, en ég tel að hann sé enn þá allt of hár.

Sérstaklega er fjallað um hönnunarvörur í þessu frumvarpi. Þar segir að hönnunarvara teljist íslensk að uppruna ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki þó að hún sé framleidd erlendis úr erlendu hráefni, enda sé ekki um að ræða hráefni sem er eðlislíkt innlendu hráefni sem teljist hafa séríslenskan uppruna, einkenni eða eiginleika, eins og þar er orðað. Ef við reynum að þýða þetta yfir á mannamál þá þýðir þetta t.d. að leyfilegt er að nota fánann á fatnað sem íslensk fyrirtæki framleiða í Kína svo framarlega sem þau geta sýnt fram á að um íslenska hönnun sé að ræða. Hér kemur upp smávandamál því að íslensk hönnun og hönnun yfirleitt er teygjanlegt hugtak svo að ekki sé meira sagt, ekki síst þegar kemur að fatnaði. Oft dugar að gera smávægilegar breytingar á útliti vöru til að hægt sé að stimpla hana sem íslenska hönnun. Það er því hætt við því að fjölmargar hönnunarvörur sem hafa í raun sáralítil tengsl við Ísland önnur en þau að kaupandinn er íslenskur muni bera íslenska fánann í framtíðinni. Þetta er umhugsunarefni.

Sérstaklega er tilgreint að hráefnið sem notað er í framleiðslu á þessari hönnunarvöru erlendis megi ekki vera eðlislíkt innlendu hráefni sem telst hafa séríslenskan uppruna, eiginleika og einkenni, eins og ég sagði áðan. Þar er t.d. átt við íslensku ullina, segir í athugasemdum við frumvarpið. Hvenær er erlent hráefni orðið of eðlislíkt innlendu hráefni? Ég hef ekki hugmynd um það. Væntanlega þýðir þetta að ekki má nota íslenska fánann á lopapeysur framleiddar í Kína ef lopinn er frá öðru landi en Íslandi. En hvað ef peysurnar eru úr blönduðu efni, úr efni sem er allt annað en lopi en líkist honum þó? Hvar verða mörkin dregin? Hvenær er hráefnið orðið of líkt íslensku hráefni? Ég hef ekki hugmynd um það, en það er alveg ljóst að fjölmargir framleiðendur munu láta reyna á þetta ákvæði, bæði hvað varðar hvað teljist íslensk hönnun og hvenær hráefnið sé orðið of líkt íslensku hráefni.

Svo má spyrja: Má nota fánann við sölu vöru sem er íslensk, t.d. íslensk uppfinning eða uppfinningar, verndaðar með einkaleyfi en eru framleiddar úr erlendum hráefnum? Svo virðist sem hönnunarákvæði þessa frumvarps taki fyrst og fremst til útlits vara. Við framleiðum hins vegar ýmsar vélar í sjávarútvegi og fyrir matvælaframleiðslu, auk t.d. lyfja, svo fátt eitt sé nefnt. Flokkast hráefni hér eða varan yfirleitt sem íslensk eða ekki?

Í athugasemdum við þetta frumvarp, um notkun íslenska fánans við markaðssetningu vöru og þjónustu, segir að þau sjónarmið sem liggi að baki frumvarpinu lúti fyrst og fremst að því að neytendur geti, þegar um er að ræða vöru sem merkt er íslenska þjóðfánanum, treyst því að hún sé í raun íslensk að uppruna. Enn fremur að þeir sem setji slíka vöru á markað og vilja koma íslenskum uppruna vörunnar á framfæri með skýrum hætti, t.d. til að ná athygli erlendra ferðamanna, geti merkt hana með þjóðfána Íslendinga. Þetta eru góð og göfug markmið. Það verður hins vegar að setja ákveðið spurningarmerki við það hvort frumvarpið sé í samræmi við þessi markmið.

Við skulum tala skýrt. Ég sé ekki betur en fjölmargar vörur, sem fæst okkar mundu telja íslenskar, verði skreyttar með íslenska fánanum í framtíðinni og þar með gefið í skyn að þær séu íslensk framleiðsla. Ég sé ekki annað en fatnaður, minjagripir og fleira, t.d. framleitt í Kína og selt til útlendinga í verslunum á Laugaveginum, t.d. lundarnir í lundabúðunum, muni væntanlega bera íslenska fánann í framtíðinni. Þetta gæti verið íslensk hönnun. Það er hægt að skreyta vörurnar með íslenska fánanum eins og þær séu íslensk framleiðsla. Það sama gildir um peysur og annað slíkt sem selt eru hérlendis en jafnvel framleitt í stóru magni erlendis. Það er ekkert sem kemur í veg fyrr að peysurnar beri íslenska fánann í framtíðinni og verði seldar sem íslensk vara.

Það getur vel verið að ég sé gamaldags í þessu máli. Það er nú einu sinni svo að ég tel að við höfum flest okkar nokkurn veginn sama sjónarmið á því hvað teljist vera íslensk vara. Auðvitað getur okkur greint aðeins á um það. En ég lít til dæmis ekki á fjöldaframleiddar vörur erlendis sem íslenskar vörur þó að þær séu seldar hérlendis og ég mun ekki gera það. Mér finnst það ekki rétt. Ég held að flestir kaupendur slíkrar vöru séu sama sinnis, hvort sem það eru erlendir ferðamenn eða Íslendingar yfirleitt. Vara er í mínum huga ekki íslensk þó að einhver íslenskur hönnuður hafi komið að því að teikna á blað útlit vörunnar.

Við skulum átta okkur á því að þetta getur líka þýtt að skynjun okkar á hvað er íslenskt og hvað ekki muni brenglast. Við þurfum því að stíga varlega til jarðar í þessu máli. Við viljum ekki skaða íslenskan iðnað, ekki síst smáiðnað sem á í erfiðri samkeppni við ódýra framleiðslu sem streymir inn í landið. Við þurfum líka að gæta að einyrkjum sem eru að berjast fyrir tilveru sinni.

Ég mun styðja þetta frumvarp þar sem ég tel afar mikilvægt að íslensk fyrirtæki geti notað íslenska fánann í markaðsskyni. Ísland er orðið verðmætt vörumerki um allan heim. Það hefur ekki gerst af sjálfu sér. Á bak við það liggur mikil vinna og miklir fjármunir. Við verðum hins vegar að gæta að þeim verðmætum sem við höfum í höndunum. Það að skreyta vörur sem sannarlega eru erlendar en ekki íslenskar með íslenska fánanum gerir okkur ekki neitt gagn þó að einstakir framleiðendur og söluaðilar hagnist á því. Margra ára markaðsstarf varðandi íslenskar vörur hefur skilað miklu. Við megum ekki setja það í hættu. Við eigum að heimila notkun á íslenska fánanum við markaðssetningu, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, en við verðum að gæta að þeim skrefum sem við erum að taka. Neytendur verða að geta treyst því að um íslenska vöru sé að ræða, ekki að blekkingum sé beitt.

Ég tel að við eigum að senda þetta mál til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég vona að þar verði gerðar nauðsynlegar breytingar til að tryggja að þær vörur sem merktar verða sem íslenskar séu í raun íslenskar en ekki í dulbúningi.

Í þessu frumvarpi þarf hugtakanotkun að vera skýr. Hún er of matskennd eins og hún er sett upp. Það er ekkert sem er ekki hægt að breyta í meðförum þingsins. Á heildina litið erum við að fara í jákvæða átt með þessu frumvarpi.