145. löggjafarþing — 21. fundur,  15. okt. 2015.

löggæslumál.

[10:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Það þarf ekkert um það að deila að á löggæslunni í landinu hvílir gríðarlega mikilvægt hlutverk. Ég held að við getum verið sammála um það og ég hef talað mjög skýrt fyrir því að nauðsynlegt er að efla löggæsluna í landinu. Það má alveg taka undir að gera þarf miklu betur í þeim efnum. Ég held að ég hafi margoft sagt í þessum stól að þar þurfi margt að vinna, bæði vegna þeirra þrenginga sem við gengum í gegnum og lögreglan varð að sjálfsögðu vör við eins og allir aðrir, og vegna þeirra verkefna sem hafa aukist hjá lögreglunni og hún þarf bolmagn til að sinna.

Á vettvangi okkar í innanríkisráðuneytinu hvílir auðvitað umgjörðin um starfsemi lögreglunnar. Þar höfum við að sjálfsögðu verið að berjast fyrir auknum fjármunum. Okkur hefur miðað áfram þótt að sjálfsögðu mundi ég vilja sjá okkur miða hraðar áfram, en þó er okkur að miða áfram. Við þurfum að gera betur, bæði þegar við lítum til framlaga til lögreglumála og til fjölgunar lögreglumanna þar sem líka skortir á. Gerð var skýrsla árið 2013 þar sem var farið yfir ýmis mál sem varða löggæsluna í landinu. Þar stóðu fulltrúar allra þingflokka að málum, m.a. fulltrúi úr mínum þingflokki. Þannig að ég held að stefnumörkunin og viljinn sé fyrir hendi.

Við getum deilt um það hversu hratt eða hægt hlutirnir ganga fyrir sig, en það getur stundum verið þannig og menn þurfa bara að horfast í augu við að hlutir geta tekið tíma. Það skiptir máli í þessu að sígandi lukka sé fyrir hendi. En af minni hálfu þarf ekkert að efast um stuðning minn og vilja til að bæta aðstæður löggæslunnar. Því hef ég margoft lýst yfir, bæði hér í þessum stól og eins rætt það við lögreglumenn um að sá vilji sé skýr af minni hálfu. Þá finnst mér skipta máli almenn umgjörð lögreglunnar og líka möguleiki lögreglumanna til náms, að bæta úr lögreglunámi. Allt er þetta liður í því að bæta almennan aðbúnað lögreglunnar. Þar getur þetta ráðuneyti að sjálfsögðu orðið að liði.